Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Loksins! Fullt skólastarf frá 4. maí 2020

30.04.2020
Loksins! Fullt skólastarf frá 4. maí 2020

Mánudaginn 4. maí hefst skólahald að nýju með hefðbundnu sniði. Allir nemendur mæta í sína umsjónarhópa og er ekki gert ráð fyrir neinum hömlum eða skerðingum á skólastarfinu hvað varðar nemendur. Að vísu ætlum við að skipta hópnum upp í morgunsamveru þannig að hver hópur fer aðeins í morgunsamveru einu sinni í viku. Aðrir hópar verða á sama tíma með umsjónarkennurunum í heimastofum.

Við leggjum mikla áherslu á að allir nemendur mæti í skólann nema þeir séu veikir.  

Nemendur og starfsmenn sem finna til veikinda, einkenna sem tengjast flensu og/eða COVID-19, eiga skilyrðislaust að vera heima        

Verkgreinar, íþróttir og sund verða samkvæmt stundatöflu. Nú eins og áður á vorin þá færast íþróttirnar út og munu íþróttakennarar upplýsa ykkur frekar um fyrirkomulag á því. Frímínútur verða með sama skipulagi og áður.

Við munum eins og hægt er draga úr gestakomum inn í skólahúsið og beinun þeim tilmælum til foreldra að koma ekki inn í skólann nema brýn nauðsyn sé. Foreldrar sem þurfa að koma inn í skólann eru beðnir um að hafa samband í síma eða tölvupósti í stað þess að koma.

Foreldrar leikskólabarnanna þurfa eðlilega að koma inn í húsið og höfum við sama fyrirkomulag á því eins og síðustu vikur að aðeins börnin fara inn í kennslustofuna og foreldrar koma bara í fataklefana. Nánari upplýsingar fyrir forráðamenn leikskólabarna.

Skólamatur verður með hefðbundnu sniði og nemendur sem áður voru í áskrift halda því áfram. Ef óskað er eftir breytingum á áskrift þá er foreldrum bent á að hafa samband við https://www.skolamatur.is/. Eins og gert var áður en skólahald var skert verður sérstök áhersla lögð á hreinlæti og sótthreinsun bæði í tengslum við matinn og annað. Allir nemendur þvo sér um hendur áður en farið er í matsal auk þess sem þau spritta hendur við skömmtun.

Áfram verður mikil áhersla lögð á þrif og sótthreinsun í skólahúsinu. Snertifletir verða þrifnir aukalega. Starfsmenn skólans fylgja áfram reglum um 2 metra fjarlægð og mun skipulag skólastarfsins varðandi undirbúning og fundahöld taka mið af því.

Skipulag viðburða næstu vikna verður kynnt sérstaklega síðar þegar teknar hafa verið ákvarðanir um fyrirkomulag á t.d. upplestrarhátíð, árshátíð , skólslitum og fleiru.

Til baka
English
Hafðu samband