Sigurvegarar í Flatóvision
Flatóvision var haldið í níunda sinn í dag í Flataskóla og hefur þetta verkefni verið árlegur viðburður í skólastarfinu frá 2009 en skólinn tekur þátt í þessu verkefni ásamt 36 öðrum skólum í Evrópu. Hátíðin er haldin til þess að finna lag í samskiptaverkefnið Schoolovision sem er evrópst verkefni á vegum eTwinning sem er rafrænt skólasamstarf í Evrópu. Sigurlag Flatóvision að þessu sinni var lagið "Nótt" sem nemendur í 6. bekk fluttu. Lagið er eftir Svein Rúnar Sigurðsson og Aron Hannes flutti það í söngvakeppni sjónvarpsins 2017. Í Flatóvision fá nemendur úr 4. til 7. bekk að koma með atriði (lag og dans) sem þau velja sjálf og æfa (með tilliti til reglna sem settar eru hverju sinni). Dómarar að þessu sinni voru Hildur Kristín Stefánsdóttir, söngkona, Árný Árnadóttir, Jóna Oddsdóttir og Svanhvít Guðbjartsdóttir starfsmenn hér við skólann og tveir fulltrúar úr nemendaráði Garðaskóla og fyrrum nemendur Flataskóla þær Snæfríður og Anna Katrín. Finnbjörg og Mathilda skemmtu með undirleik og söng í hléi og fjórar stúlkur úr 6. bekk sýndu dans undir tónlist "Holla at me" með Chris Brown. Allt fór þetta vel fram og var það ekki síst nemendum úr 7. bekk að þakka sem sáu um tæknina, ljósin og aðra umgjörð í kringum hátíðina. Myndir má skoða í myndasafni skólans. Myndband frá hátíðinni verður sett á vefsíðu skólans innan skamms.