Dagur íslenskrar tungu
Í tilefni dags íslenskrar tungu gerðu nemendur og kennarar sér dagamun og héldu upp á hann með ýmsu móti. Nemendur í 4 og 5 ára bekk sungu um lóuna úti í Vigdísarlundi, 1. bekkur bjó til nótnastöð um lóukvæðið, 2. bekkur bjó til leikrit eftir nokkrum ljóðum Jónasar Hallgrímssonar. 3. og 6. bekkir unnu með nafnið hans Jónasar í leiknum orð af orði. 4. bekkur skoðaði veðrið og fann íslensk veðurorð. 5. bekkur lék sér að orðhlutum úr ljóðinu "Á íslensku má alltaf finna svar" og nemendur í 7. bekk léku og tóku upp á myndbönd ljóð, sögur og málshætti. Afrakstur þessarar vinnu er að hægt að skoða í nánasta umhverfi skólans og einnig á veggjum innan skólans. Eldri bekkirnir fóru einnig í ratleik á svæðinu kringum skólann en yngri bekkirnir röltu út í Vigdísarlund með nestið sitt. Veðrið lék við okkur í morgun þannig að útiveran var kærkomin tilbreyting og var ekki annað að sjá en nemendur væru sáttir við þetta uppbrot á skólastarfinu. Myndir eru komnar í myndasafn skólans.
Í myndbandinu hér fyrir neðan er hægt að sjá sýnishorn af því sem fram fór á Degi íslenskrar tungu.