Dagur mannréttinda barna 20.nóvember 2024
21.11.2024
Degi mannréttinda barna var fagnað í Flataskóla 20. nóvember líkt og gert var víðs vegar um heiminn. Þennan dag árið 1989, var Barnasáttmálinn samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Á Íslandi var samningurinn fullgiltur árið 1992 og lögfestur árið 2013.
Flataskóli varð réttindaskóli UNICEF haustið 2017, annar af fyrstu tveimur réttindaskólum á Íslandi. Réttindaskólum UNICEF fjölgar ár frá ári og nú eru mörg þúsund börn á landinu sem læra um réttindi sín í réttindamiðuðu umhverfi. Markmið réttindaskóla er að byggja upp lýðræðislegt umhverfi með því að rækta með markvissum hætti þekkingu, leikni og viðhorf sem hjálpar börnum að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í lýðræðissamfélagi.
Á hverju hausti fá nemendur Flataskóla tækifæri til að bjóða sig fram í réttindaráð skólans. Úr hverjum umsjónarhópi kemur einn nemandi í ráðið. Skólaárið 2024 – 2025 eru sextán nemendur í réttindaráðinu og koma þeir úr 2.-7. bekk.
Í tilefni af degi mannréttinda barna kynnti réttindaráð skólans sig fyrir öðrum nemendum í morgunsamveru á sal. Einnig sá réttindaráðið um kynningu á dagskrá morgunsamverunnar. Þar var sýnt myndband frá Barnaheill um börn frá Grindavík, Úkraínu og Palestínu sem öll eiga það sameiginlegt að hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Markmið myndbandsins er að vekja athygli á því áfalli sem það er að missa heimili sitt og mikilvægi þess að hlúa vel að þessum hópi barna. Í lok samverustundarinnar sungu allir nemendur saman lagið Myndin hennar Lísu eftir Olgu Guðrúnu Árnadóttur.
Í öllum árgöngum skólans voru svo unnin fjölbreytt verkefni tengd Degi mannréttinda barna, einhverjir unnu verkefni í kjölfar myndbandsins, aðrir unnu með verkefni frá Jafnréttisskóla Reykjavíkur um samtvinnun og fjölbreytileika barnahópsins. Einn árgangur stóð fyrir nemendaþingi þar sem nemendur fengu tækifæri til að tjá sig um það sem þeim finnst gott við skólann sinn og hvað mætti betur fara. Í framsögn sinni tengdu nemendur við þær greinar Barnasáttmálans sem þeim fannst eiga við hverju sinni.
Hér er hlekkur á myndbandið frá Barnaheillum: https://barnaheill.is/dagur-mannrettinda-barna/