Íslenska æskulýðsrannsóknin
Nú á vormánuðum verður Íslenska æskulýðsrannsóknin lögð fyrir skólabörn í 4.─10. bekk í langflestum grunnskólum landsins. Menntavísindastofnun Háskóla Íslands framkvæmir rannsóknina fyrir Mennta- og barnamálaráðuneytið á tímabilinu 2021 - 2026 á grundvelli æskulýðslaga nr. 70/2007. Í Flataskóla er könnunin lögð fyrir nemendur í 4. og 6. bekk.
Hér má finna upplýsingablað um könnunina á ýmsum tungumálum.
Niðurstöður rannsóknarinnar eru mikilvægar upplýsingar um farsæld barna á Íslandi. Mennta- og barnamálaráðuneytið mun jafnframt nýta niðurstöðurnar í mælaborð ráðuneytisins sem byggir á endurskoðun á félagslegri umgjörð barna á Íslandi. Þátttaka sem flestra barna er því afar mikilvæg til að ná sem áreiðanlegustum niðurstöðum um velferð barna á Íslandi.
Íslenska æskulýðsrannsóknin er viðamikil rannsókn á sviði heilsu og heilsutengdrar hegðunar barna og ungmenna en helstu gögn rannsóknarinnar ná allt aftur til 1995 og 2006. Markmið rannsóknarinnar er að auka þekkingu og skilning á heilsu, líðan, viðhorfum og aðstæðum grunnskólabarna á Íslandi. Spurningarlistinn er staðlaður eftir aldri, þar sem meðal annars er spurt um líðan, viðhorf til skólans, líðan í skóla, næringu, svefn, hreyfingu, tómstundir, slys, félagsleg tengsl og ýmsa áhættuhegðun.
Könnunin er ópersónugreinanleg og verður lögð fyrir á rafrænu formi á skólatíma. Siðanefnd háskólanna um vísindarannsóknir hefur fjallað um efni og framkvæmd rannsóknarinnar og gerir ekki athugasemdir.
Þátttaka nemenda er valkvæð og foreldrar/forsjáraðilar þeirra geta hafnað þátttöku. Viljir þú ekki að barn þitt taki þátt í könnuninni getur þú sent tilkynningu um það á tengilið könnunarinnar innan skólans, helgame@flataskoli.is
Tímasetning fyrirlagnar spurningalistans fer eftir samkomulagi við stjórnendur hvers skóla. Tengiliður innan skólanna mun upplýsa nemendur um að könnunin sé ópersónugreinanleg og að nemendum sé ekki skylt að taka þátt eða svara spurningum sem þeir vilja sleppa. Einnig er nemendum heimilt að hætta þátttöku hvenær sem er.
Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er Kristín Harðardóttir forstöðumaður Menntavísindastofnunnar Háskóla Íslands (Netfang: krishar@hi.is).
Með kveðju
Ólöf Ragna Einarsdóttir
Verkefnastjóri
Menntavísindastofnun Háskóla Íslands