Þorgrímur Þráinsson heimsækir Flataskóla
Fimmtudaginn 13. október kom Þorgrímur Þráinsson og flutti erindi fyrir nemendur í 4. – 7. bekk sem hann kallar Sterk liðsheild. Hvað getum við lært af landsliðinu í Frakklandi? Hann sýndi myndir og myndbönd af því sem gerðist á bak við tjöldin í Frakklandi og útskýrði hvers vegna landsliðið í knattspyrnu náði svo góðum árangri. Þorgrímur benti líka nemendum á að þeir væru líka lið (bekkur), með þjálfara (kennara), aðstoðarmenn (foreldra, systkini o.s.frv.) og að nemendur gætu líka verið fyrirliðar (leiðtogar) með því að leggja sig fram. Hann var því fyrst og fremst að hvetja nemendur til dáða, fá þá til að setja sér markmið, sýna samkennd, hjálpa öðrum, virða kennarann og svo mætti lengi telja. Við i Flataskóla þökkum honum kærlega fyrir þetta fróðlega erindi.