Hvað kosta jólin?
Nemendur í 7. bekk unnu verkefnið "Hvað kosta jólin" í desember sem þemaverkefni. Nemendur unnu í hópum þar sem hver hópur bjó til fjölskyldu sem var að undirbúa jólahátíðina. Verkefnið krafðist mikillar samvinnu og þurftu nemendur að koma sér saman um marga þætti eins og hvað ætti að vera í matinn, hvað ætti að baka, hverjum ætti að gefa jólagjafir og hvað það ætti að vera, hvernig ætti að skreyta o.s.frv. Nemendur leituðu að verði á öllu því sem ákveðið var að gera og kaupa og útbjuggu kostnaðaráætlun.
Hóparnir bjuggu til veggspjöld þar sem fjölskyldur voru kynntar til sögunnar, kostnaðaráætlun um innkaup var birt og hátíðarmatseðill settur upp. Einnig voru sett upp veggspjöld með íslensku jólasveinunum þar sem skrifað var um þá á ensku, en von var á Englendingum í „heimsókn“ til fjölskyldanna. Í lokin kynntu hóparnir verkefnin sín og unnu sjálfsmat um verkefnavinnuna.
Þetta verkefni var samþætting fjölda námsgreina. Nemendur unnu með íslensku, upplýsingatækni, stærðfræði, ensku, fjármálalæsi, samfélagsfræði, tjáningu og sköpun og mikið reyndi einnig á samvinnu. Í sjálfsmati þeirra kom skýrt fram að þeir töldu sig hafa lært að það gæti verið mjög kostnaðarsamt að halda jól og þess vegna gæti verið erfitt að undirbúa þau. Nemendur segjast einnig hafa lært þakklæti. Í myndasafni skólans má sjá myndir af veggspjöldunum sem unnin voru í verkefninu.