Skólareglur Flataskóla hafa verið endurnýjaðar. Réttindaráð skólans valdi níu greinar Barnasáttmálans sem það taldi eiga erindi í skólareglur. Ákveðið var að hafa 3. gr. “Það sem er barninu fyrir bestu” sem regnhlífargrein yfir skólareglunum og þurfa reglurnar að taka mið af því sem er best fyrir börnin í skólanum. Mikilvægt er að vera meðvitaður um að réttur hvers barns endar þar sem réttur þess næsta byrjar.
Hópur nemenda skilgreindi hvað nemendur og starfsfólk þurfa að gera til að þau réttindi barna sem greinarnar ná yfir séu virt með því er stuðlað að því að réttindi allra barna í skólanum séu virt og skólabragur verði barnvænn.
Fulltrúar nemenda úr öllum árgöngum skilgreindu hvað nemendur þurfa að gera til að framfylgja reglunum og virða réttindi allra nemenda. Þau skráðu niður hvað þau sem einstaklingar þurfa að gera- með setninguna “þetta þýðir að ég” í huga. Reglurnar eru komnar á heimasíðu skólans en vinnu við uppsetningu þeirra er ekki lokið.
Markviss kynning á reglunum fyrir nemendum fer af stað um leið og uppsetningu reglnanna er lokið.