Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Hin áhrifaríka bók Benjamín dúfa - 6.bekkur

14.03.2025
Hin áhrifaríka bók Benjamín dúfa - 6.bekkur„Þetta er námsefni sem hefur djúp og mikil áhrif á nemendur,“ segir kennari í 6. bekk, en árgangurinn er að ljúka lestri og vinnu með bókina Benjamín dúfu eftir Friðrik Erlingsson. Bókina þarf vart að kynna en fyrir þá sem eru svo heppnir að eiga eftir að lesa hana, þá fjallar hún um unga drengi, vináttu þeirra, átök, réttlæti og ranglæti. Bókin er partur af námsefni sjötta bekkjar ár hvert og kennarar geta margir tekið undir að hafa átt í mestu erfiðleikum með að lesa söguna fyrir nemendur vegna þess hve sorgleg hún er á köflum. Stúlka í 6. bekk gat ekki beðið eftir að bekkurinn horfði saman á myndina og tók forskot á sæluna. Aðspurð hvernig henni hafi fundist myndin sagði hún: „Ég gat ekki breytt textanum/talinu í íslensku og horfði á hana á spænsku (!) en samt fór ég að gráta, hún er svo ótrúlega sorgleg.“ Sagan gefur nemendum innsýn í hversu líf samferðarfólks og aðstæður geta verið ólíkar og þá staðreynd að oft er hægt að finna skýringu á því sem hægt er að kalla „erfiða hegðun eða viðmót“. Skýringin er ekki endilega augljós, en allt hefur sínar ástæður. Þegar við gáfum nemendur tækifæri til að ræða persónur bókarinnar og heimilisaðstæður þeirra kom í ljós að þótt þessir eldkláru kollar okkar í Flataskóla séu ungir að árum, þá er tilfinningagreind nemenda oft og tíðum mikil og áhrifaríkt fyrir kennara að upplifa það og hlusta á þá. Kennararnir nutu þess að lesa um Benjamín dúfu og sögðu bókina vera fjársjóð bæði fyrir kennara og nemendur.

Myndir með frétt

Til baka
English
Hafðu samband