Árbæjarsafn og húsdýragarðurinn
Þriðjudaginn 10. júní fóru nemendur í 5 ára bekk í heimsókn á Árbæjarsafn. Baldur starfsmaður safnsins tók á móti þeim og bæði sýndi þeim gömul hús og sagði sögur frá gamla tímanum. Síðan fengu nemendur tækifæri til að leika sér með dót frá liðnum tímum bæði úti og inni í Landakoti. Eftir skemmtilegan morgun voru svo grillaðar pylsur í fallegu rjóðri á Árbæjarsafni þar sem nemendur undu sér vel við leiki í fallegri náttúrunni.
Á fimmtudaginn í vikunni var svo farið í útskriftarferð í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn.Þar voru öll dýrin heimsótt í fylgd starfsmanns garðsins og fengu nemendur meðal annars að hitta geiturnar, gefa hænunum og klappa hestunum. Þá fylgdust þeir einnig með þegar selunum var gefið og sáu kóp sem fæðst hafði fyrr um morguninn. Síðan voru grillaðar pylsur áður en allir fengu armbönd til að fara í leiktæki Húsdýragarðsins og gerði það mikla lukku meðal nemenda. Myndirnar í myndasafni skólans sýna vel hve nemendur áttu góða stund á þessum stöðum og hve vel þeir undu sér meðal dýranna.