Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Nemendur í 3. bekk á ferð og flugi

11.12.2015
Nemendur í 3. bekk á ferð og flugi

Nemendur í þriðja bekk hafa verið mikið á ferðinni síðustu daga og kannað umhverfi sitt. Þeir fóru m.a. í menningarferð til Hafnarfjarðar og heimsóttu Karmelklaustrið sem staðsett er við Ölduslóð og er mjög sérstakt. Þar búa ellefu pólskar nunnur og reka þær verslun þar sem þær selja ýmislegt fallegt sem þær hafa útbúið eins og handmáluð kerti, skrautritun á bækur o.fl. Kapellan er núna mjög fallega skreytt fyrir jólin og var gaman að sýna nemendum hana enda voru nunnurnar afar gestrisnar og sungu og spiluðu og svöruðu spurningum nemenda. Eftir heimsóknina í klaustrið var gengið niður í bæinn og kíkt á jólaljósin í Strandgötunni og endað upp í Hellisgerði þar sem brugðið var á leik í snjónum. Eftir það var strætisvagninn tekinn aftur í Garðabæinn. 

Þá bauð Tónlistarskólinn í Garðabæ nemendum í 2. og 3. bekk á jólatónleika í vikunni sem kom þeim svo sannarlega í jólaskap.

Í morgun var svo haldið til hjónanna Siggu og Bjössa til að búa til kerti og njóta veitinga hjá þeim. Áttu nemendur yndislega stund þar. Þeir fengu heimabakaðar bollur og súkkulaðiköku sem Sigga hafði bakað um morguninn. Síðan spiluðu hjónin fyrir nemendur á píanó og sög sem var afar nýstárlegt að hlusta á.  Myndir frá þessum atburðum eru komnar í myndasafn skólans.

 

Til baka
English
Hafðu samband