Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Vísindamenn í heimsókn

27.11.2015
Vísindamenn í heimsókn

Verkefnið "Vísindamenn í heimsókn" hefur fengið styrk til að fá fræði- og vísindamenn í heimsókn til að upplýsa nemendur um umhverfismennt í víðum skilningi. Fyrsti gesturinn í verkefninu var Sabína St. Halldórsdóttir sem er landsfulltrúi hjá  UMFÍ. Hún sagði nemendum í 7. bekk í gærmorgun frá Landssambandinu og  ýmsu sem tengist umhverfismennt og hvernig sambandið beitir sér fyrir því að breiða út breyttar umgengnisvenjur. Markmið hreyfingarinnar er ræktun lýðs og lands. Sabína sagði frá landsmótum sem hreyfingin stendur fyrir árlega á mismunandi stöðum á landinu í kringum fyrstu helgina í ágúst. Þar eru allir velkomnir að taka þátt og var greinilegt að nemendur voru áhugasamir að vita meira um þennan þátt því mikið var spurt. Sabína hvatti krakkana til að skoða heimasíðuna hjá UMFÍ og fylgjast með því sem þar væri á döfinni t.d. hvar næsta landsmót verður haldið og hvaða íþróttagreinum verður keppt í. Hún sagði skemmtilegar sögur um hvernig hægt var að ganga betur um og nýta aftur það sem við höfum nú þegar. Hún sagði t.d. frá eldra fólkinu á Patreksfirði sem safnaði gömlum fötum og saumaði úr þeim innkaupapoka sem þeir gáfu í verslanir, svo hægt væri að hætta að nota plastpoka sem vilja safnast saman í náttúrunni. Góður rómur var gerður að heimsókninni og von er á öðrum gesti í næstu viku sem ætlar að tala um eðlisfræði og fleira sem tengist henni. Í lok heimsóknar tóku nokkrir nemendur viðtal við Sabínu og spurðu hana spurninga um starfið hennar og áhugamál. Myndir frá heimsókn Sabínu eru komnar í myndasafn skólans.

Til baka
English
Hafðu samband