Innritun í Flataskóla skólaárið 2024-2025
Flataskóli hefur frá árinu 1958 menntað unga Garðbæinga við góðan orðstír. Í skólanum eru nú við störf um 330 nemendur á aldrinum sex til tólf ára í 1.-7. bekk.
Innritun fyrir skólaárið 2024-2025 fer fram í gegnum þjónustugátt Garðabæjar og er opið fyrir innritun til 10.03. 2024.
Innritun þeirra barna sem óska eftir dvöl á frístundaheimilum fer fram á sama tíma. Ef umsóknir fyrir næsta skólaár berast fyrir 15. júní 2024 fær barnið pláss á umbeðnu frístundaheimili. Umsóknir sem berast eftir þann tíma eru afgreiddar með tilliti til starfsmannahalds hverju sinni.
Öllum þeim sem óska eftir að koma í heimsókn og fá kynningu á skólanum er velkomið að hafa samband við Helgu Kristjánsdóttur deildarstjóra með tölvupósti á helgakris@flataskoli.is. Einnig er hægt að hringja í skrifstofu skólans í s.5133500 og senda póst á netfangið flataskoli@flataskoli.is.
Í Flataskóla leggjum við ávallt kapp á að veita menntun eins og hún gerist best í samræmi við áherslur og þarfir hvers tíma. Við leitumst við að ná sem bestum árangri sem einstaklingar og sem heild og að styðja hvert annað til góðra verka. Við minnumst þess að skólinn er ekki bara undirbúningur undir lífið heldur hluti af lífinu sjálfu og því leggjum við áherslu á að gera hvern dag sem ánægjulegastan. Vingjarnleiki, virðing, samkennd, ábyrgð og mannrækt einkennir samskiptin innan skólans og lögð er áhersla á persónuleg samskipti í heimilislegu andrúmslofti. Skólinn á gott samstarf við foreldra og starfsmenn vinna markvisst að því að nám og starf allra nemenda miðist við þarfir þeirra, getu og sterkar hliðar. Skólastarfið byggir á gömlum grunni og við eigum margar góðar og gamlar venjur sem mynda góðan ramma um starfið en á sama tíma leitum við sífellt nýrra leiða til að læra og ná framförum.
Við bjóðum nýja nemendur og foreldra hjartanlega velkomna í skólasamfélagið okkar í Flataskóla.
Sýn Flataskóla
“Í Flataskóla er ýtt undir seiglu, sjálfstæði, skapandi hugsun, sjálfstjórn og samkennd nemenda og starfsfólks. Námið í skólanum er áhugavert, gerðar eru skýrar væntingar til nemenda og öllum gert kleift að vaxa. “ Áhersla á S-in fimm seiglu, sjálfstæði, skapandi hugsun, sjálfstjórn og samkennd eiga að vera sýnileg í öllu okkar starfi.
Stefna Flataskóla er byggð á þeim einkunnarorðum sem skólinn hefur sett sér að vinna eftir. Einkunnarorðin eru menntun, árangur og ánægja
Skólinn hefur sett sér sýn og markmið tengt hverju einkunnarorði:
Menntun
Menntun nemenda stuðli að sjálfstæði þeirra, sköpunargleði og samkennd
Markmið
- Ýtt er undir sjálfstæði nemenda og áhrif þeirra og meðvitund um eigið nám eflt
- Nemendum eru gefin fjölbreytt og markviss tækifæri til að hafa skapandi áhrif á eigið nám
- Gagnkvæm virðing ríkir í samskiptum innan skólans og fjölbreytileika er fagnað
- Nemendur fá tækifæri til að læra um möguleika og áskoranir stafrænnar tilveru sinnar .
Árangur
Skipulag náms og kennslu einkennist af fagmennsku og hvetjandi námsmenningu í anda leiðsagnarnáms til að ýta undir framfarir nemenda.
Markmið
- Í Flataskóla ríkir fagmennska í starfsemi skólans
- Menntun nemenda er markviss
- Stuðlað er að hvetjandi námsmenningu í anda leiðsagnarnáms til að ýta undir metnað og framfarir nemenda.
Ánægja
Nám nemenda sé áhugavert og veran í skólanum uppbyggileg og ýti undir sterka sjálfsmynd nemenda.
Markmið
- Nám nemenda er áhugavert og merkingarbært fyrir nemendum
- Sjálfsmynd nemenda og trú á eigin getu eflist á skólagöngu þeirra.