Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Flataskóli fékk viðurkenningu sem eTwinningskóli

21.03.2018
Flataskóli fékk viðurkenningu sem eTwinningskóli

Flataskóli var einn af fjórum fyrstu skólum á Íslandi sem hlaut titilinn eTwinning skóli. Landskrifstofan veitti skólanum þessa viðurkenningu nýlega og byggðist hún á öruggri netnotkun og breiðri þátttöku í eTwinningverkefnum og alþjóðasamstarfi, þ.e. að þátttakan byggir ekki á framtaki einstakra kennara heldur er hún markviss, nýtur stuðnings skólastjórnenda og nær til fjölda nemenda. Þetta er í fyrsta sinn sem Landskrifstofan veitir slíka viðurkenningu/titil.  Skólarnir sem hlutu titilinn að þessu sinni fyrir utan Flataskóla eru: Grunnskóli Bolungarvíkur, Leikskólinn Holt og Stóru-Vogaskóli.

Það er liður í skólaþróun að gerast eTwinning skóli. Viðurkenningin er til tveggja ára í senn.  Fyrir utan að eflast enn frekar í notkun upplýsingatækni og alþjóðasamstarfi:

  • hafa eTwinning skólar tækifæri til styrkja starfsþróun kennara og skólastjórnenda auk alþjóðatengsla skólans
  • skólinn verður sýnilegri í skólasamfélagi eTwinning
  • hann fær tækifæri til að mynda tengsl við aðra eTwinning skóla í Evrópu  og verður hluti af evrópsku neti eTwinning skóla
  • það verða aukin tækifæri til starfsþróunar í boði fyrir kennara og skólastjórnendur skólans

Skólinn hefur tekið þátt í fjölda samskiptaverkefna s.l. 10 ár eða um það bil 50 verkefni hafa verið unnin í skólanum  á vegum eTwinning, Erasmus+, Comenius og Nordplus. Má þar t.d. nefna verkefni sem unnin hafa verið árlega eins og Schoolovision og European Chain Reaction. Umfjöllun um verkefnin er á heimasíðu skólans. Meðal annars hófst í síðustu viku vinna við Schoolovision verkefnið í 10 sinn með glæsilegri Flatóvisionhátíð þar sem framlag skólans var valið fyrir Schoolovision 2018 sem verður í maí n.k.

 

Til baka
English
Hafðu samband