Lærdómsrík og skemmtileg verkefni í heimilisfræði
23.10.2025
Eitt af markmiðum heimilisfræðinnar er að fagið sé bæði skemmtilegt, einstaklega lærdómsríkt og gagnlegt. Börn eru svo skapandi og njóta þess að útbúa eitthvað hollt og gott eða sætt og safaríkt og eru hreykin af frammistöðu sinni. Stundum eru gerðar tilraunir eins og þegar 4. bekkur lærði um bragð og bragðskyn. Krakkarnir útbjuggu gulrótarsalat, settu í fjórar skálar og mismunandi bragðgjafa í hverja skál. Síðan flokkuðu þau salatskálarnar í súrt, sætt, salt og beiskt.
Nemendur í 7. bekk kynntust vinsælu brauðmeti frá Bretlandi þegar þau bökuðu enskar skonsur. Fræðslan tengdist því hvernig Bretar borða skonsurnar og hvað þeir hafa með þeim. Uppskriftin sem krakkarnir notuðu er einföld en hægt er að bragðbæta hana með ýmsu móti, til dæmis rifnum berki af appelsínu, trönuberjum og/eða hnetum.
Krökkunum fannst þessi verkefni skemmtileg, lærdómsrík og vonandi gagnast þeim þessi þekking líka …. Þótt síðar verði 😊

