Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Nemendur

Með jafnréttisstefnu Flataskóla er leitast við að koma til móts við alla nemendur eins og hægt er til þess að auka vellíðan og þroska þeirra á meðan á námi stendur. Flataskóli leitast við að fylgja Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í 29.gr. stendur „Undirbúa barn til að lifa ábyrgu lífi í frjálsu þjóðfélagi, í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, jafnréttis karla og kvenna og vináttu milli allra þjóða, þjóðhátta-, þjóðernis- og trúarhópa, og fólks af frumbyggjaættum.
 

Rannsóknir sem framkvæmdar hafa verið hérlendis benda til að kynin séu félagslega ólík og þarfir þeirra misjafnar. Nemendur skal hvetja til dáða á sviðum sem eru hefðbundin fyrir annað kynið. 

Aðstaða

Aðstaða nemenda til náms og annarrar starfsemi innan skólans skal vera jöfn óháð kynferði, kynhneigð, útliti, fötlun, trúarskoðun eða uppruna.
 
Mikilvægt er að í náminu séu hlutir skoðaðir frá mörgum sjónarhornum  og að nemendum sé kennt að skoða námsefni og annað með gagnrýnum huga þannig að koma megi auga á og vinna gegn misrétti.
 

Jafnt aðgengi kynja skal vera að upplýsingum um réttindi og skyldur nemenda og hið sama á við um námstilboð og aðstöðu til náms sem og aðgengi þeirra að heimildaöflun. 

Kennsla og árangur

Einstaklingar þroskast mismunandi hratt á grunnskólaárunum og er því sveigjanleiki og fjölbreytni mikilvæg til þess að koma til móts við þarfir og getu hvers og eins.  
 
Leitast skal við að beita fjölbreyttum kennsluaðferðum sem gagnast báðum kynjum. Skoða skal námsárangur nemenda með sjónarhorni kynjanna og bregðast við ef misvægi er á árangri.
 

Kennarar skulu vera til fyrirmyndar varðandi jafréttissinnaða framkomu. Þannig skal þess gætt að bæði stúlkur og drengir fái jafnmikil tækifæri til að tjá skoðanir sínar.

Nemendum sé tryggður vettvangur til að koma fram með gagnrýni og ábendingar um það sem betur má fara bæði í skólastarfinu og almennt í samfélaginu.
 
Í skólanum sé tryggt að nemendur eigi rétt á markvissri jafnréttisfræðslu. Í skólanum er sniðgengið námsefni sem felur í sér kynþáttahyggju, samkynhneigðarfælni eða annað það efni sem kann að hafa mótandi áhrif á kynhlutverk í nútíma samfélagi.
 

Vanræksla, kynferðisleg áreitni eða annað ofbeldi gagnvart nemendum

Nemendur Flataskóla eiga ekki að þurfa að þola kynferðislega áreitni sem birst getur í mörgum myndum svo sem orðfæri, samskiptum eða niðurlægjandi gamansemi. Nemendur eiga hvorki að þurfa að þola slíka hegðun af hendi samnemenda sinna né starfsmanna skólans. 
 
Starfsmenn skólans fá fræðslu um vísbendingar og viðbrögð við kynferðislegri misnotkun, öðru ofbeldi gagnvart börnum, annarri vanrækslu og áhættuhegðun hjá þeim. Við minnsta grun um kynferðislega áreitni eða annað ofbeldi gagnvart börnum, vanrækslu eða áhættuhegðun er fylgt skilgreindu verklagi um tilkynningarskyldu sem Garðabær hefur gefið út.
 
 
 
English
Hafðu samband