Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Garðahreppur var fámennur fram á miðja síðustu öld og fjöldi skólabarna breytilegur. Allt frá 1908-1942 breytist fjöldi barnanna frá 11 til 16. Á skólaárinu 1942 - 1943 eru þau 11 að tölu. Þaðan í frá fjölgar börnunum í hreppnum allt frá því að vera 54 talsins skólaárið 1952-53 í 137 við stofnun Barnaskóla Garðahrepps 1958.

Barnaskóli Garðahrepps, síðar Flataskóli, var settur þann 18. október 1958 í nýju skólahúsi við Vífilsstaðaveg. Nemendur voru þann vetur 137 talsins. Við stofnun skólans varð Vilbergur Júlíusson skólastjóri hans og allt til ársins 1984. Auk hans komu að skólanum sex kennarar.

Viðhorf Vilbergs til skólahalds 10 árum síðar kemur fram í grein hans í Setbergi 1968: „Hornsteinn uppeldisins er heimilið. Því verður aldrei breytt. Skólinn getur aðeins stutt það en samvinna er höfuðnauðsyn... Skólinn hefur verið í mótun. Nú þarf skólinn að horfa til framtíðarinnar, hyggja að nýjum og breyttum viðhorfum í kennslu og uppeldi og byggja á fyrri reynslu”.

Sigrún Gísladóttir gegndi starfi skólastjóra Flataskóla frá 1984 til 2004. Hún var í leyfi haustið 1997 og vorið 1999 þá leysti Þorbjörg Þóroddsdóttir, þáverandi aðstoðarskólastjóri hana af. Skólaárið 2002 - 2003 leysti Inga Þórunn Halldórsdóttir hana af sem skólastjóri. Helga María Guðmundsdóttir hefur gengt starfi aðstoðarskólastjóra frá 2000.

Sigurveig Sæmundsdóttir tók við starfi skólastjóra Flataskóla þann 1. ágúst 2004 til 2010 en áður gegndi hún starfi aðstoðarskólastjóra Hofsstaðaskóla. 

Helga María Guðmundsdóttir stjórnaði skólanum skólaárið 2010 til 2011 en um haustið 2011 tók Ólöf Sigríður Sigurðardóttir við stjórninni.

Byggt hefur verið við skólahúsið fimm sinnum og árið 2003 var lokið við sjöunda byggingaráfanga skólahúsnæðisins.
Hönnuður þess var Einar Ingimarsson, arkitekt og hefur hann verið viðloðandi byggingarframkvæmdir við skólann s.l. 19 ár. Einnig var skólalóð skólans endurhönnuð og var það Þráinn Hauksson, landslagsarkitekt sem það gerði. Jafnframt hannaði hann nýjan gervigrasvöll við Ásgarð, íþróttamiðstöð Garðabæjar og er sá völlur nýttur að hluta sem skólalóð fyrir skólann.

Flataskóla hefur jafnan fylgt góður andi og metnaður til árangurs nemenda. Jákvætt samstarf við heimilin í anda fyrsta skólastjóra hans sem hvatti mjög til þess og hafði skilning á þeirri samfellu sem er börnum nauðsynleg til að ná góðum árangri í starfi og leik.

Skólasaga Garðahrepps - Flataskóli 
Ágrip af skólasögu Garðahrepps

English
Hafðu samband