Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Réttindaskóli

Í samstarfi við Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, stefnir Flataskóli á að vera einn af fyrstu réttindaskólum á Íslandi. Réttindaskólar eru alþjóðlegt vottunarverkefni sem hefur borið mikinn árangur m.a. í Bretlandi og Kanada. Með verkefninu er stefnt að því að fræða börn um Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna en hann tekur á öllum þeim réttindum sem börn öðlast við fæðingu og eiga þar til þau verða 18 ára gömul. Réttindaskólaverkefnið skapar ramma utan um þau markmið sem koma fram í aðalnámskrá grunnskóla, grunnskólalögum og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi, jafnrétti og lýðræði.
Flataskóli hóf innleiðingu verkefnisins haustið 2016 ásamt tveimur skólum úr Reykjavík, Lauganesskóla og Laugalækjarskóla. Verkefnið er tilraunaverkefni og í fyrsta sinn á heimsvísu er einnig verið að prófa að innleiða réttindaskólalíkanið í frístundaheimili þáttökuskólanna sem og félagsmiðstöð Laugalækjarskóla. Gert er ráð fyrir að innleiðingarferlið taki rúmt ár.
Eitt af meginhlutverkum grunnskólans í samvinnu við heimilin er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Markmiðið er að byggja upp lýðræðislegt námsumhverfi, auka þekkingu á mannréttindum og stuðla að gagnkvæmri virðingu innan skólasamfélagsins. Þátttökuskólar leggja Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna til grundvallar öllu starfi sínu.
Flataskóli stefnir á að hafa uppfyllt þau skilyrði sem þarf til að verða Réttindaskóli í byrjun nóvember og mun þá fá viðurkenningu frá UNICEF 20. nóvember 2017 á alþjóðlegum degi barnsins.

   
English
Hafðu samband