Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Þróunarverkefni 2015 - 2016 

Vísindamenn í heimsókn

Flataskóli fékk styrk fyrir þróunarverkefnið "Vísindamenn í heimsókn" fyrir nemendur í 6. og 7. bekk til að fræða þá um ýmislegt í eðlis- og náttúrufræði. Verkefnisstjóri var Kolbrún Svala Hjaltadóttir kennsluráðgjafi í tölvu- og upplýsingafræði.

Fimm vísindamenn komu í heimsókn til okkar. Tveir þeirra komu í 7. bekk en það voru þau Sabína Steinunn Halldórsdóttir og Kristján Klausen. Sabína er landsfulltrúi hjá Ungmennafélagi Íslands og ræddi hún almennt um umhverfismennt og hvernig hægt væri að lifa heilbrigðu lífi og vernda umhverfið. Hún sagði þeim frá ráðstefnum sem félagið stendur fyrir og hvert umfjöllunarefni þeirra er og fyrir hvað Ungmennafélög standa. 

Kristján er eðlisfræðingur í HÍ og spjallaði hann um eðlisfræðina, sérstaklega um frumeindir, sameindir, rafmagn, magn og massa. Kristján kom með myndir þar sem hann útskýrði m.a. brotala. Hann gerði þeim ljóst að vísindin hafa ekki skýringar á öllu, að það er ekki allt þekkt og ánægja vísindamannsins felst í að kanna hið óþekkta. Var gerður góður rómur að þessum heimsóknum og fræðimönnunum þakkað fyrir komuna. En áður en þau yfirgáfu skólann fengu nemendur að taka viðtal við þau og spyrja þau enn frekar spjörunum úr. Hér fyrir neðan er hægt að hlusta á viðtölin sem tekin voru upp á myndband.

Viðtal við Sabínu

Viðtal við Kristján

Nemendur í 6. bekk fengu þrjá vísindamenn í heimsókn til sín, en það voru þau Guðfinna Aðalgeirsdóttir jarðeðlisfræðingur, sem unnið hefur bæði á Grænlandsjökli og á Suðurpólnum og sýndi hún nemendum myndir af veru sinni þar og sagði þeim frá því sem hún var að gera þar og hvernig hún ferðaðist til þessara staða. Oddur Sigurðsson jarð- og jöklafræðingur sagði þeim frá landrekinu, landkönnuðum á heimskautin, náttúru þeirra og fleira tengt því. Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur kom og sagði þeim frá því hvernig veðurspár væru unnar og fjallaði hún einnig um gróðurhúsaáhrif af mannavöldum og breytingar tengdar þeim. Hún kom með áhöld til að gera veðurathuganir og sýndi krökkunum.

Eftir allar þessar heimsóknir fengu nemendur verkefni sem tengdist efni fyrirlestranna. Kennarar sendu bréf heim með upplýsingum um verkefnið og því sem fjallað var um, og einnig undirbjuggu þeir nemendur undir komu vísindamannanna.
Við fengum aukalega einn fyrirlestur um eyjar frá Oddi þar sem hann sagði nemendum í 3. bekk frá því hvernig eyjar mynduðust og ýmislegt fleira skemmtilegt um það efni, en nemendur voru einmitt að vinna með eyjar um það leyti sem Oddur heimsótti 6. bekkingana svo það þótti bráðupplagt að fá hann til að spjalla einnig við yngri nemendurna sem hann var alveg til í að gera.

Það er samdóma álit kennara að þessar heimsóknir hafi við kærkomin viðbót við fræðslu nemenda í eðlis- og náttúrufræði og gott uppbrot í skólastarfið.


Elín veðurfræðingur í heimsókn í hátíðarsal Flataskóla.

Söguskjóður

Markmið verkefnisins:
Helstu áherslur í verkefninu voru á lestarkennslu, lesskilning, læsi og foreldrasamstarf og fellur það því undir námsgreinina íslensku þegar litið er til aðalnámskrár grunnskóla og námssviðsins læsi og samskipti með tilliti til aðalnámskrár leikskóla. Markhópurinn eru 5 og 6 ára börn sem eru að stíga sín fyrstu skref í lestrarnámi og því tilvalið að ýta undir það með áhugaverðum verkefnum sem falla undir alla þessa þætti um leið og þeir efla foreldratengsl og foreldrasamstarf.

Leiðir sem farnar voru til að ná markmiðum þ.e. framkvæmd, tímaplan og umfang verkefnis:
Kennarar 2. bekkja, kennsluráðgjafi, bókavörður og deildarstjóri leikskólans settust niður og fóru yfir þær bækur sem ákveðið var að taka fyrir í söguskjóðunum. Tíu bækur voru valdar og við lásum þær og skráðum hjá okkur verkefni, hugmyndir og fl. sem hentaði hverri bók. Verkefnið hófst ekki fyrr en í október þar sem ekki tókst fyrr að finna sameiginlegan tíma. Einnig stóð til að Þóra Dögg aðstoðarleikskólastjóri væri verkefnisstjóri en hún fór í barnsburðarleyfi svo að því þurfti að breyta.

Í Söguskjóðunum er að finna ýmis konar hluti ásamt bókum, sögubók og fræðibók. Markmiðið er að foreldrar/kennarar lesi söguna með börnunum/barni sínu, fletti með því í fræðibókinni og sýni/segi þeim/því það helsta sem þar er að finna. Þá eru í pokanum ýmsir munir eins og búningar, grímur, spil, uppskriftir, smáhlutir eins og dýr, bílar, peningar, tuskudýr og fleira er viðkemur söguefninu í hverjum poka. Hugmyndablað fylgir hverri skjóðu þar sem talið er upp það sem hægt er að gera með barninu í tengslum við hverja sögu. Lítil bók fylgir einnig með þar sem hægt er að skrifa/lýsa því sem gert var og hvernig það gekk. Gott væri líka að fá þangað hugmyndir um eitthvað fleira sem hægt væri að gera og ekki er að finna á hugmyndalista í pokanum.

Það er von okkar að þetta verkefni megi gefa foreldrum/kennurum og börnum góðar stundir þegar þau vinna þessi verkefni enda er það markmiðið með þeim að efla samskipti barna, foreldra og skóla.

Kennsluráðgjafi kynnti verkefnið á fundi hjá leikskólakennurum á leikskólanum Akri á vorönn og sýndi sýnishorn af einni söguskjóðunni.

        

________________________________________________________________________________________________________ 

Þróunarverkefni 2008 - 2009

Byrjendalæsi


Fyrir skólaárið 2008-2009 fékk Flataskóli styrk til að hefja þróunarverkefni um byrjendalæsi í fyrsta og öðrum bekk í Flataskóla. Verkefnisstjórar voru Sigurlaug Jónsdóttir og Guðlaug Einarsdóttir. Faglega ráðgjöf veitti Steinunn Torfadóttir lektor í sérkennslufræðum við Kennaraháskóla Íslands.
Verkefnið var í anda þess fyrirkomulags sem verið var að þróa bæði í Evrópu (Bretlandi) og Bandaríkjunum og tók mið af niðurstöðum nýrra lestrarrannsókna.
Meginmarkmið verkefnisins var að bæta skipulag lestrarkennslunnar og móta kennslufyrirkomulag sem mætti þörfum allra nemenda. 

Áfangaskýrsla um byrjendalæsi - janúar 2009

Lokaskýrsla um byrjendalæsi - júlí 2009

 

Útikennsla


Flataskóli fékk einnig styrk fyrir skólaárið 2008-2009 til að hefja þróunarverkefni um Útikennslu í Flataskóla. Verkefnistjóri var Ragna Gunnarsdóttir en faglegan stuðning veitti Auður Pálsdóttir, aðjunkt við KHÍ. Aðstaða til útikennslu var aukin bæði á skólalóðinni sem og í næsta nágrenni og kom starfsfólk skólans, nemendur og foreldrar að hönnun og uppbyggingu útikennslusvæðisins.
Meginmarkmið verkefnisins var að móta aðstæður til útináms út frá breyttum áherslum nýrrar aðalnámsskrár.

Áfangaskýrsla um útikennslu -  janúar 2009

Ferð tveggja kennara til Tékklands á námskeið í útikennslu í apríl 2009

Innanhúsþing í maí 2009 vegna útikennslu

Lokaskýrsla um verkefnið útikennsla 

______________________________________________________________________

Þróunarverkefni 2006 - 2007

Fjölbreyttir kennsluhættir


Flataskóli vann að þróunarverkefni veturinn 2006 - 2007 um fjölbreytta kennsluhætti. Ráðgjafi verkefnisins var Lilja M. Jónsdóttur, lektor við Kennaraháskóla Íslands.

Meginmarkmið verkefnisins var að efla fjölbreytt og sveigjanlegt skólastarf með það í huga að auka veg fjölbreyttra kennslu- og námsmatsaðferða.

Stefnt var að koma sem best til móts við einstaklingsmiðaðar þarfir nemenda (áhuga, hæfileika, getu og viðhorf). Þá var stefnt að verkefnum sem beindust að því að auka ábyrgð nemenda á eigin námi. Einnig má nefna aukinn þátt skapandi starfs, samvinnunáms og heildstæðra viðfangsefna þar sem byggt var á upplýsingaleit, úrvinnslu og fjölbreyttri miðlun. Skýrsla um verkefnið er hér.

Unnið var áfram á svipuðum nótum veturinn 2007- 2008 og var gert í þróunarverkefninu árið 2006-2007.

English
Hafðu samband