Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar
Norðurskautið (Grænland og Ísland)

 

  
Suðurskautið

Tveir skólar á Ítalíu ásamt Flataskóla vinna saman að þessu verkefni en það tengist heimskautavísindum, verðurfarsbreytingum og gróðurhúsaáhrifum. Borin eru saman heimskautin með tilliti hvað er líkt og hvað er ólíkt með þeim. Einnig fá nemendur að kynnast því hvers konar rannsóknir eru stundaðar á Suðurskautinu og af hverju, eins og t.d. Mc Murdo, Iceberg og Andrill verkefnin. Vísindamenn koma í heimsókn til að segja frá veðurfari, rannsóknum á Suðurheimskautinu og jöklabreytingum svo nemendur geti betur áttað sig á hvað er að gerast í þessum málum á alþjóða vísu.

Verkefnið kemur inn á margar námsgreinar eins og líffræði, umhverfisfræði, lífsleikni, siðfræði, ensku, landafræði, jarðfræði, tölvu- og upplýsingafræði og náttúrufræði.

Samskipti fara fram á ensku. Nemendur á Íslandi eru í 7. bekk


Verkfærin sem notuð eru í verkefninu: veffundir, tölvupóstur, hugbúnaður (PowerPoint, Photostory, freemind), myndbönd, myndir og teikningar og Twinspace svæðið.

Markmið:

  • Auka vitneskju um heimskautin
  • Gera einfaldar tilraunir í tengslum við bráðnun jökla og hafíss
  • Gera þeim ljóst hve mikilvæg heimskautin eru sem vatnsforðabúr heimsins
  • Áhrif loftslagsbreytinga á lífið á jörðinni
  • Rannsóknir á Suðurheimskautinu
  • Hvernig er líf við sérstakar aðstæður eins og kulda
  • Auka virðingu fyrir náttúrunni og hvernig við getum verndað hana
  • Bæta tungumálakunnáttu
  • Kynnast nemendum í öðru landi sem eru að fást við samskonar verkefni

Vinnulag:

Nemendur fá vísindamenn í heimsókn sem segja þeim frá rannsóknum á Suðurskautinu, loftslagsbreytingum og einkennum heimskautanna. Gerðar verða tilraunir í tengslum við fyrirlestrana og nemendur skila niðurstöðum á rafrænu formi til kennara. Veffundir verða haldnir þar sem spjallað verður um viðfangsefni verkefnisins. Nemendur skoða efni á netinu sem tengist verkefninu og sett hefur verið í krækjusafn skólans. Má þar nefna t.d. vefsíður eins og Antarctic Geological Drilling, Alfred Wegener Institute og Classroom Antarctica.

 

Vinnusvæði verkefnisins á vef eTwinning er hér.


Oddur jarðfræðingur í heimsókn.

Í janúar 2014 kom Oddur jarðfræðingur frá Veðurstofunni í heimsókn og sagði nemendum frá landrekinu, heimskautunum og fánu þeirra, einnig sagði hann þeim frá nokkrum landkönnuðuðum sem höfðu afrekað það að leggja í rannsóknarferðir til heimskautanna á síðustu öldum. Nemendur sýndu áhuga og voru  ánægðir með heimsókn Odds og fannst frásögn hans skemmtileg og fræðandi, en kannað var eftir heimsóknina hvað þeim fannst.

Hér er hægt að skoða myndir sem nemendur teiknuðu að loknum fyrirlestri Odds.

 

 

 Í framhaldi af heimsókn Odds var gerð tilraun með bráðnun íss og athugað hvaða breytingar yrðu þegar landís/hafís bráðaði. Myndir frá tilrauninni er hægt að skoða hér. Niðurstöður voru þær að yfirborð hækkar við bráðnun landíss (jökla).


Guðfinna jarðeðlisfræðingur kom í heimsókn í febrúar 2014.

Guðfinna hefur starfað sem vísindamaður víða erlendis meðal annars á Suðurskautslandinu og á Grænlandi. Hún sagði nemendum frá því hvernig hún fór þangað og hvað hún var að gera og hvers vegna. Hún sagði þeim meðal annars af því að það væri hægt að lesa veðurfar síðustu alda úr borkjörnum sem boraðir væru í ísinn. Hún sýndi þeim myndir af lífinu og starfinu í búðunum sem hún dvaldi í og einnig úr tjaldinu þar sem borinn var að bora niður í ísinn. Nemendur voru áhugasamir og vildu fá að vita margt um verkefnið hennar og Guðfinna svaraði spurningum þeirra vel og vandlega. Það var áhugavert að sjá hve nemendur voru duglegir að spyrja og afla sér upplýsinga eftir fyrirlesturinn.

   


Einar veðurfræðingur heimsótti nemendur í febrúar 2014.

Einar kom að fræddi nemendur um veðurfar og hafstrauma á hnettinum okkar. Hann talaði um skotvindinn á norðurhvelinu og hvernig hann sveigir og beygir sig umhverfis norðurhvelið. Hann sagði þeim frá golfstrauminum og öðrum hafstraumum, hita og seltu hafsins, hringrás straumanna og straumamót. Hann útskýrði einnig af hverju það væru svona góð fiskimið kringum Ísland. Hafís og borgarís bar einnig á góma og var ekki annað að sjá en að nemendur væru áhugasamir um það sem Einar hafði fram að færa í þessum málum. Hér fyrir neðan er smásýnishorn af því sem Einar kom með fyrir nemendur.


English
Hafðu samband