Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Rýmingaráætlun

Leitast er við að tryggja öryggi nemenda og starfsmanna eins og kostur er. Rýmingarleiðir eru merktar í öllum kennslustofum. Í skólanum er brunaviðvörunarkerfi og eru skynjarar í öllum rýmum hússins. Reglubundnar brunaæfingar eru a.m.k. einu sinni á ári. Við reglulegar brunaæfingar er tilvalið að minna nemendur á að fela sig ekki þegar bjalla fer af stað. 

Fari brunaviðvörunarkerfið í gang

  • Kennarar kenna nemendum að þegar brunabjallan hringir þá hætti þau því sem þau eru að gera og fari í röð við dyrnar og bíði eftir fyrirmælum kennara / starfsfólks. Kennarar gera sig klára fyrir rýmingu kennslustofunnar og skoða flóttaleiðakort á meðan þeir bíða átekta. 

Mynd sem inniheldur texti, skj�mynd  Lýsing sjálfkrafa búin til

  • Allir aðrir starfsmenn skólans undirbúa sig fyrir að rýma þurfi skólann og eru í viðbragsstöðu. 

  • Húsvörður og allir skólastjórnendur sem eru í húsi fara að stjórntöflu brunaviðvörunarkerfis og aðgæta hvaðan brunaboðið kemur. 

    • Ef ekki er um hættu að ræða er slökkt á brunabjöllu og  skólastjórnendur skipta á milli sín álmum skólans og láta vita að hættu sé aflýst.  Húsvörður hefur samband við Öryggismiðstöð og gefur skýringar á brunaboðinu.

    • Ef brunabjalla hefur ekki hljóðnað eftir u.þ.b. 1 mínútu skal hefja rýmingu og eins ef bjalla hljóðnar og fer aftur í gang. Sé sjáanlegur eldur eða reykur skal hefja rýmingu strax.

    • Skrifstofustjóri hefur samband við slökkvilið í síma 112 og tilkynnir um eld. 

  • Þegar skóli er rýmdur eiga allir (nemendur og starfsfólk) að safnast saman á söfnunarsvæði sem eru battavellir sunnan við skólann.  Fara skal hratt en skipulega út og skilja allt laust dót eftir s.s. töskur, bækur og úlpur. Nemendur fara í skó ef hægt er og ganga svo rólega út í röðum undir stjórn kennara.  

  • Þegar út er komið safnast allir saman í röðum á söfnunarsvæðinu, ein röð fyrir hvern umsjónarhóp. 1. – 4. bekkur á battavelli vinstra megin séð frá skólanum og 5. – 7. bekkur hægra megin séð frá skólanum (nær íþróttahúsinu).  

  • Aðstoðarskólastjóri tekur á móti nemendum/starfsfólki á battavelli og leiðbeinir um uppröðun. Kennarar fá afhentan nafnalista fyrir sinn árgang til að geta hafið nafnakall. Að nafnakalli loknu lyfta kennarar upp grænu spjaldi ef allir hafa skilað sér út annars rauðu spjaldi ef einhver börn vantar. 

  • Skólastjóri, eða staðgengill hans, fer á milli hópa og fær upplýsingar um hvort einhver börn hafi ekki skilað sér með hópnum út og kannar hvar þau sáust síðast í skólanum.

  • Húsvörður tekur á móti slökkviliði og leiðbeinir um staðsetningu eldsins. Skólastjóri gefur varðstjóra slökkviliðs upplýsingar hvort einhverjir nemendur hafi ekki skilað sér út og hugsanlega staðsetningu þeirra.

  • Farið er með börn og starfsfólk af svæðinu í íþróttahúsið. SMS/tölvupóstur er sendur á aðstandendur. Fulltrúi slökkviliðs talar við nemendur og starfsmenn. Foreldrar/forráðamenn sækja nemendur í íþróttahúsið. Merkja þarf við nafn barns þegar það er sótt og einnig að skrá það sérstaklega með hverjum barnið fór heim ef það er sótt af öðrum en forráðamönnum sínum. Notast er við sömu nafnalista fyrir þetta og voru notaðir í nafnakallið. 

  • Mynd sem inniheldur kort  Lýsing sjálfkrafa búin til

Hlutverk starfsmanna

  • Kennarar:  sjá um að rýma stofur og stilla sínum umsjónarhóp í röð á söfnunarsvæði. 

  • Skólaliðar: sjá um að rýma salerni og ganga á sínum svæðum. Fara svo að útgöngum á sínum svæðum, aðstoða við rýmingu og gæta þess að enginn fari aftur inn í húsið.

  • Stuðningsfulltrúar: Fylgja rýmingaráætlun á því svæði þar sem þeir eru staddir hverju sinni og aðstoða við rýmingu. 

  • Starfsfólk frístundar: sér um að rýma frístundaheimili og koma nemendum á söfnunarsvæði. Umsjónarmaður frístundar ber ábyrgð á nafnakalli nemenda.

  • Safnstjóri skólasafns: Sér um að rýma bókasafnið og fylgir nemendum sem eru þar út á söfnunarsvæði.  

  • Matráður kaffistofu starfsmanna: Sér um að rýma kaffistofu og vinnuherbergi, fer svo út á söfnunarsvæði. 

  • Skrifstofustjóri: Fer að stjórntöflu með öðrum stjórnendum og grípur rýmingarmöppuna með sér. Hringir á slökkvilið ef eldur kemur upp. Fer svo að söfnunarsvæði og aðstoðar þar sem þörf er á.

  • Aðstoðarskólastjóri: Fer að stjórntöflu ásamt öðrum stjórnendum. Ef kemur til rýmingar fer hann beint út á söfnunarsvæði og  tekur rýmingarmöppuna með sér. Afhendir kennurum nafnalist fyrir hvern árgang og stjórnar uppröðun nemenda á söfnunarsvæðinu.

  • Húsvörður: Fer að stjórntöflu ásamt öðrum stjórnendum. Hefur samband við Öryggismiðstöðina þegar brunaboði fer í gang. Tekur á móti slökkviliði. 

  • Aðrir stjórnendur (deildarstjórar): Fara að stjórntöflu ásamt öðrum stjórnendum. Aðstoða við rýmingu eins og hægt er og fara að söfnunarsvæði. 

  • MATSALUR: ATH séu starfsmenn / nemendur staddir í sal skólans bera þeir starfsmenn sem þar eru ábyrgð á rýmingu nemenda. Notast skal við neyðarútgang í salnum og fara að söfnunarsvæði. Ekki má senda nemendur úr salnum til að sækja skó.


Aðrir punktar varðandi rýmingu

  • Muna að sá aðili sem síðastur fer út úr hverju rými skal loka öllum dyrum (ekki læsa) til að draga úr reykflæði um bygginguna og hindra útbreiðslu elds eins og hægt er. Ekki má nota lyftur.


Til baka

English
Hafðu samband