Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Starfsfólk 

Leitast skal við að vekja starfsmenn Flataskóla til umhugsunar um jafnrétti og hvað felst í jöfnum réttindum fólks.
 

Ráðningar

Jafnréttissjónarmið skulu höfð að leiðarljósi til jafns við önnur sjónarmið þegar ráðið er í stöður við skólann. Flataskóli vill jafna hlut kvenna og karla í starfsliði skólans og mun hvetja þá er teljast tilheyra minnihlutahópum meðal starfsliðs að sækja um þær stöður sem auglýstar eru lausar við skólann. Stefnt sé að því að fjöldi kvenna og karla sé sem jafnastur. Í auglýsingum á vegum skólans eru bæði kynin hvött til að sækja um.
 

Launakjör 

Kynferði skal aldrei ráða launa- eða starfskjörum starfsmanna Flataskóla. Konur og karlar skulu njóta sömu launakjara og hafa jafna möguleika á launuðum aukastörfum innan skólans. Gæta skal að sem jöfnustum kynjahlutföllum í nefndum skólans. Starfsmenn, óháð kyni, skulu hafa sem jafnastan aðgang að því sem talið er til hlunninda.
 

Starfsaðstaða og endurmenntun

Starfsmenn skulu hafa jafnan rétt og jafnt aðgengi að allri vinnuaðstöðu.
Námskeið sem eru hluti af símenntunaráætlun skólans verða í boði fyrir alla starfsmenn. Þar verða meðal annars fengnir fagmenn til þess að leiðbeina starfsfólki Flataskóla hvernig kynna megi og fræða nemendur skólans um jafnréttisstefnuna og almennt um jafnréttismál. 
 

Samræming einkalífs og vinnu 

Starfsfólki Flataskóla er gert kleift að samræma vinnu og einkalíf, t.d. með sveigjanlegum viðverutíma þegar unnt er starfsins vegna. Bæði körlum og konum er gert mögulegt að sinna tímabundinni fjölskylduábyrgð sem skapast af veikindum náinna fjölskyldumeðlima. Tekið er tillit til kvenna vegna þungunar og barnsburðar.
 

Einelti og kynferðisleg áreitni hjá starfsmönnum

Kynferðisleg áreitni er ekki liðin í Flataskóla í neinu formi. Með því er átt t.d. við myndir, orðfæri, samskipti eða gamansemi sem vísa til kynferðis eða kynhneigðar og eru á einhvern hátt niðurlægjandi fyrir annað eða bæði kynin. Ágreiningsmál hvað þetta varðar geta komið upp og er þá skólastjórnenda og/eða skólaskrifstofu að taka slík mál til meðferðar. 
 
Auka skal fræðslu um einelti og kynferðislega áreitni til að stuðla að því að allt starfsfólk verði meðvitað um slík málefni og geti greint og brugðist við þegar þau koma upp. Ef starfsmaður telur að jafnrétti sé brotið á sér eða öðrum skal hann leyta til stjórnenda eða trúnaðarmanns sem finna farveg fyrir málið samkvæmt áætlun.
 
Allir starfsmenn samþykkja að veittur sé aðgangur að sakaskrá sinni þannig að koma megi í veg fyrir að þeir sem gerst hafa sekir um ósæmilega hegðun verði ráðnir.
 
 
English
Hafðu samband