Jafnréttisstefna Flataskóla
Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla frá árinu 2008 ber öllum fyrirtækjum og stofnunum sem hafa fleiri er 25 starfsmenn að setja sér jafnréttisáætlun. Markmiðið með lagaskyldunni er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Allir einstaklingar skulu eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni. Flataskóli fylgir einnig jafnréttisstefnu Garðabæjar sem og aðalnámskrá grunnskóla og stefnir að því að efla trúarbragða-, einkalífs- og siðfræðslu á öllum stigum skólans.
Það er stefna Flataskóla að tryggja að öll kyn njóti jafnréttis og að hver nemandi og starfsmaður sé metinn að verðleikum og sýni hver öðrum virðingu í samskiptum. Markmið stefnunnar er að jafna kjör og aðstæður allra kynja með tilliti til launa og annarra starfskjara, stjórnunarþátttöku og tækifæri til menntunar. Hvers kyns kynbundin mismunun og kynbundið ofbeldi eða áreiti er ekki liðið.
Með jafnréttisstefnunni lýsir Flataskóli vilja sínum til þess að jafna hlut ólíkra einstaklinga sem og vilja sínum til þess að bregðast við þeim aðstæðum sem benda til misréttis.
Unnið er markvisst gegn stöðluðum hugmyndum um kynjahlutverk. Skólinn leggur á það áherslu að vera til fyrirmyndar í jafnréttismálum.
Jafnréttisáætlun Flataskóla tekur til annars vegar nemenda og hins vegar starfsmanna. Jafnréttisáætlun Flataskóla skal endurskoða á tveggja ára fresti. Skal sú endurskoðun fara fram í maí. Næst skal endurskoða jafnréttisáætlunina í maí 2027.
Nemendur
Með jafnréttisstefnu Flataskóla er leitast við að koma til móts við alla nemendur eins og hægt er til þess að auka vellíðan og þroska þeirra á meðan á námi stendur. Flataskóli leitast við að fylgja Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í 29.gr. stendur „Undirbúa barn til að lifa ábyrgu lífi í frjálsu þjóðfélagi, í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, jafnréttis karla og kvenna og vináttu milli allra þjóða, þjóðhátta-, þjóðernis- og trúarhópa, og fólks af frumbyggjaættum“.
Nemendur skal hvetja til dáða á öllum sviðum óháð kyni.
Aðstaða
Aðstaða nemenda til náms og annarrar starfsemi innan skólans skal vera jöfn óháð kynferði, kynhneigð, útliti, fötlun, trúarskoðun eða uppruna.
Mikilvægt er að í náminu séu hlutir skoðaðir frá mörgum sjónarhornum og að nemendum sé kennt að skoða námsefni og annað með gagnrýnum huga þannig að koma megi auga á og vinna gegn misrétti.
Jafnt aðgengi kynja skal vera að upplýsingum um réttindi og skyldur nemenda og hið sama á við um námstilboð og aðstöðu til náms sem og aðgengi þeirra að heimildaöflun.
Kennsla og árangur
Einstaklingar þroskast mismunandi hratt á grunnskólaárunum og er því sveigjanleiki og fjölbreytni mikilvæg til þess að koma til móts við þarfir og getu hvers og eins.
Leitast skal við að beita fjölbreyttum kennsluaðferðum sem gagnast öllum kynjum. Skoða skal námsárangur nemenda með sjónarhorni kynjanna og bregðast við ef misvægi er á árangri.
Kennarar skulu vera til fyrirmyndar varðandi jafréttissinnaða framkomu. Þannig skal þess gætt að allir fái jafnmikil tækifæri til að tjá skoðanir sínar.
Nemendum sé tryggður vettvangur til að koma fram með gagnrýni og ábendingar um það sem betur má fara bæði í skólastarfinu og almennt í samfélaginu.
Í skólanum sé tryggt að nemendur eigi rétt á markvissri jafnréttisfræðslu. Í skólanum er sniðgengið námsefni sem felur í sér kynþáttahyggju, fordóma gegn samkynhneigð eða aðra fordóma eða annað það efni sem kann að hafa mótandi áhrif á kynhlutverk í nútíma samfélagi.
Vanræksla, kynferðisleg áreitni eða annað ofbeldi.
Kynferðsleg áreitni er ekki liðin. Kynferðisleg áreitni getur birst í mörgum myndum svo sem orðfæri, samskiptum eða niðurlægjandi gamansemi. Nemendur eiga hvorki að þurfa að þola slíka hegðun af hendi samnemenda sinna né starfsmanna skólans.
Starfsmenn skólans fá fræðslu um vísbendingar og viðbrögð við kynferðislegri misnotkun, öðru ofbeldi gagnvart börnum, annarri vanrækslu og áhættuhegðun hjá þeim. Við minnsta grun um kynferðislega áreitni eða annað ofbeldi gagnvart börnum, vanrækslu eða áhættuhegðun skal fylgja skilgreindu verklagi um tilkynningarskyldu sem Garðabær hefur gefið út.
Starfsfólk
Leitast skal við að vekja starfsmenn Flataskóla til umhugsunar um jafnrétti og hvað felst í jöfnum réttindum fólks.
Ráðningar
Jafnréttissjónarmið skulu höfð að leiðarljósi til jafns við önnur sjónarmið þegar ráðið er í stöður við skólann. Flataskóli vill jafna hlut kynja í starfsliði skólans og mun hvetja þá er teljast tilheyra minnihlutahópum meðal starfsliðs að sækja um þær stöður sem auglýstar eru lausar við skólann. Stefnt sé að því að kynjahlutfall sé sem jafnast. Í auglýsingum á vegum skólans eru bæði kynin hvött til að sækja um.
Launakjör
Kynferði skal aldrei ráða launa- eða starfskjörum starfsmanna Flataskóla. Allir skulu njóta sömu launakjara og hafa jafna möguleika á launuðum aukastörfum innan skólans. Gæta skal að sem jöfnustum kynjahlutföllum í nefndum skólans. Starfsmenn, óháð kyni, skulu hafa sem jafnastan aðgang að því sem talið er til hlunninda.
Starfsaðstaða og endurmenntun
Starfsmenn skulu hafa jafnan rétt og jafnt aðgengi að allri vinnuaðstöðu.
Námskeið sem eru hluti af símenntunaráætlun skólans verða í boði fyrir alla starfsmenn. Þar verða meðal annars fengnir fagmenn til þess að leiðbeina starfsfólki Flataskóla hvernig kynna megi og fræða nemendur skólans um jafnréttisstefnuna og almennt um jafnréttismál.
Samræming einkalífs og vinnu
Starfsfólki Flataskóla er gert kleift að samræma vinnu og einkalíf, t.d. með sveigjanlegum viðverutíma þegar unnt er starfsins vegna. Öllum er gert mögulegt að sinna tímabundinni fjölskylduábyrgð sem skapast af veikindum náinna fjölskyldumeðlima. Tekið er tillit til starfsfólks vegna þungunar og barnsburðar.
Einelti og kynferðisleg áreitni hjá starfsmönnum
Kynferðisleg áreitni er ekki liðin í Flataskóla í neinu formi. Með því er átt t.d. við myndir, orðfæri, samskipti eða gamansemi sem vísa til kynferðis eða kynhneigðar og eru á einhvern hátt niðurlægjandi fyrir annað eða bæði kynin. Ágreiningsmál hvað þetta varðar geta komið upp og er þá skólastjórnenda og/eða skólaskrifstofu að taka slík mál til meðferðar.
Auka skal fræðslu um einelti og kynferðislega áreitni til að stuðla að því að allt starfsfólk verði meðvitað um slík málefni og geti greint og brugðist við þegar þau koma upp. Ef starfsmaður telur að jafnrétti sé brotið á sér eða öðrum skal hann leita til stjórnenda eða trúnaðarmanns sem finna farveg fyrir málið samkvæmt áætlun.
Allir starfsmenn samþykkja að veittur sé aðgangur að sakaskrá sinni þannig að koma megi í veg fyrir að þeir sem gerst hafa sekir um ósæmilega hegðun verði ráðnir.
-Uppfært 3.október 2025