Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Ferlar í agamálum

Samkvæmt reglugerð nr. 1040/2011 skal hver grunnskóli setja sér skólareglur. Stuðla skal að jákvæðri hegðun og miða að að því að rækta persónuþroska og hæfni nemenda. 

Skólareglur varða allt skólasamfélagið, þ.e. starfsfólk skólans og stjórn hans, nemendur og foreldra. Skólareglur eru settar í samráði við skólaráð og leitast er við að ná sem víðtækastri sátt um þær. Á hverju ári eru skólareglur kynntar nemendum og foreldrum þeirra og þær eru birtar á vef skólans. Umsjónarkennarar fjalla um reglurnar, þýðingu þeirra og hlutverk með nemendum eins oft og þurfa þykir.  

Skólareglur Flataskóla byggja á barnasáttmála sameinuðu þjóðanna og byggja því á réttindum barna, þær hafa yfirheitið "Það sem barninu er fyrir bestu" sem er tilvísun í þriðju grein Barnasáttmálans. Lögð er áhersla á það að réttur hvers nemanda endar þar sem réttur þess næsta byrjar. Samkennd og sjálfstjórn eru mikilvægir þættir í samskiptum milli nemenda. Eitt af hlutverkum skólans er að gefa nemendum tækifæri til að þjálfa sig í þessu tvennu. 

Í 40. gr. barnasáttmálans er kveðið á um að börn sem brjóta lög fái réttláta meðferð og viðeigandi aðstoð. Börnum sem ekki fara eftir reglum skólans er leiðbeint og foreldrar fengnir í lið með skólanum til að stuðla að bættri hegðun. Börnum sem eiga erfitt með  sjálfstjórn  eru undir auknu eftirliti í frímínútum og á göngum. Fyrir kemur að kalla þarf til utanaðkomandi sérfræðinga til að veita börnum aðstoð sem hafa litla sem enga sjálfstjórn.

Ferli sem er fylgt:

Starfsfólk grípur inn í árekstra milli nemenda sem það verður vitni að og alla daga er unnið  með nemendum að bættri hegðun. Samstarfs heimila og skóla er sérlega mikilvægt þegar börn eiga erfitt með að sýna sjálfstjórn og samkennd. 

Umsjónarkennari ræðir við nemendahópinn sinn um reglur skólans og umgengni og gerir hópinn samábyrgan fyrir góðum bekkjaranda og hvetjandi námsumhverfi. Skóla- og bekkjarreglur skulu vera sýnilegar á veggjum í hverju rými. Hver kennari tekur á agamálum hjá sínum nemendum og lætur umsjónarkennara vita af hegðunarvandkvæðum ef hann telur þörf á því.

Allir kennarar og starfsmenn skólans takast á við agamál á hverjum degi með fyrirbyggjandi aðgerðum og einnig viðbrögðum þegar upp koma mál sem þarf að grípa inn í.

  • Láti nemandi ekki segjast við áminningu kennara þá lætur kennari foreldra/forráðamenn vita um vandann og óskar eftir að þeir taki þátt í lausn hans.
  • Beri samstarf við foreldra ekki árangur þá kemur kennari deildarstjóra inn í málið ásamt umsjónarkennara og mögulega námsráðgjafa.
  • Náist ekki árangur í meðförum deildarstjóra skal vísa málinu til skólastjórnenda.
  • Ef engin lausn finnst á málinu þá er því vísað til nemendaverndarráðs og/eða sálfræðings skólans. Slíkt er gert í samráði við skólastjórnendur og með samþykki foreldra.

 

 

 

English
Hafðu samband