Vináttuverkefni Barnaheilla - Blær
Í leikskóladeild Flataskóla er unnið markvisst með vináttuverkefni Barnaheilla. Verkefnið felst í því að fyrirbyggja einelti með því að móta góðan skólabrag, eiga góð samskipti og hafa jákvæð viðhorf til allra í hópnum. Bangsinn Blær er táknmynd vináttunnar sem heiti efnisins vísar til en hann hjálpar börnunum að muna að gæta hvert annars vel og að vera góður félagi.
Vináttaverkefnið byggist á nýjustu rannsóknum á einelti og á ákveðinni hugmyndafræði og gildum.
Umburðarlyndi
Að viðurkenna og skilja mikilvægi og gildi fjölbreytileikans og að koma fram við alla aðra af virðingu.
Virðing
Að viðurkenna og taka tillit til allra barnanna í hópnum, að vera öllum góður félagi og að virða margbreytileikann innan hópsins.
Umhyggja
Að sýna öllum börnum áhuga, samkennd, samlíðan og hjálpsemi. Að hafa skilning á stöðu annarra.
Hugrekki
Að þora að láta til sín heyra og geta sett sér mörk. Að vera hugrakkur og góður félagi sem bregst við óréttlæti.