Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Vikur 10 og 11

20.03.2017
Vikur 10 og 11

Skíðaferðin í Bláfjöll á mánudeginum  í fyrri vikunni var einstaklega skemmtileg og vel heppnuð. Sumir fóru á skíði og prófuðu bæði töfrateppið og diskalyftuna í krakkabrekkunum. Þeir sem voru með sleðana fengu líka að prófa töfrateppið.
Nemendur í Mána- og Sólarhópum (5 ára) unnu með stafina B og Ö og skoðuðu nokkur orð með  þessum hljóðum. Þeir drógu stafina á blað og unnu stafaverkefni.
Nemendur í stjörnuhópi (4 ára) lásu um stafina T og Þ í Lubba sem finnur málbein og skoðuðum nokkur orð með hljóðunum.
Vináttuverkefnið
Verkefnið "Vinátta" frá Barnaheill sem er forvarnarverkefni gegn einelti hélt áfram. Efnið heitir á frummálinu FRI FOR MOBBERI og er þýtt, staðfært, framleitt og gefið út í samstarfi við Red barnet - Save the Children og Mary Fonden í Danmörku. Hér má sá góða kynningu á verkefninu. Verkefninu fylgir bangsinn Blær sem er okkur til halds og trausts í umræðum um ýmis málefni en einnig fá öll börnin lítinn bangsa sem þau eiga sjálf en á heima í skólanum. Svo vill til að á föstudaginn í tónmenntatíma hjá Ingu Dóru, einmitt þegar Mánar og Sólir (5 ára) voru að syngja vináttulög, komu bangsarnir til þeirra. Öllum til mikillar gleði og ánægju. Börnin hafa nú búið til hús úr mjólkurfernum fyrir bangsana sína og gefið þeim nöfn. Það er mikilvægt að gefa bangsanum sínum nafn, því samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eiga öll börn rétt á eigin nafni.
Börnin í Stjörnuhópi höfðu áður leitað að bangsanum sínum í skólanum og fundu þá hjá Ólöfu skólastjóra. Í seinni vikunni var svo rætt um virðingu, umhyggju og hugrekki. Hvernig líður okkur þegar við erum glöð og þegar við erum leið. Einnig ræddum við hvernig hver og einn þarf að geta valið sjálf/ur hvaða hlutverki hann/hún er í leik. Hvernig líður manni ef aðrir ákveða að maður megi bara vera hundurinn?
Í verkefninu K-PALS héldum við áfram að umskrá stafi og tengja saman hljóð. Við byrjuðum líka á því að giska á hljóð sem eiga við myndir og tengja saman hljóð til að búa til orð.
Á fimmtudaginn í seinni vikunni fengum við að sjá stóru krakkana keppa í Flatavision. Okkur fannst það skemmtilegt. Vel gert hjá þeim og greinilega mikið í þessa keppni lagt.
Í heimilisfræði voru bakaðar muffinskökur og í stærðfræði æfðum við okkur að telja og tengja við tölustafi. Við skoðuðum form sem við lituðum í ákveðnum fyrirfram gefnum litum. Svo fengum við að prófa nýtt app sem kallast MUSILLA í spjaldtölvunum en þar er hægt að búa til tónlist.

Myndir frá skólastarfinu þessar vikur eru komnar í myndasafn skólans.

Til baka
English
Hafðu samband