Vikan 12. til 17. desember
Vikan hefur heldur betur verið skemmtileg. Jólasveinarnir komu til byggða einn af öðrum og börnin voru spennt að ræða um þá. Þau æfðu sig í framsögn, bæði með því að segja frá og einnig í að vera góðir hlustendur. Umræðuefnið var augljóst, jólaveinarnir.
Jóladagatalið vakti lukku en það er jólatré með kúlum sem hangir á veggnum. Á hverjum degi fær einn að snúa við einni kúlu. Á bakhlið hennar stendur hvað á að gera þann daginn sem getur verið t.d. leikur, syngja lag, fá sögu eða jafnvel að fá heitt kakó o.frv. Annað sem var á dagskrá í vikunni var jólakortagerð sem endaði á að nemendur fóru á pósthúsið og sendu sjálfum sér kortið. Á mánudaginn var sýnt jólaleikritið Langleggur og Skjóða. Jólamarkaður Flataskóla var á miðvikudaginn og fór upphæðin sem safnaðist að þessu sinni til AHC samtakanna á Íslandi. Á föstudag var svo boðið upp á kaffihús í hátíðarsal með vinabekknum sem er 7. bekkur. Inn á milli alls þessa brugðu krakkarnir sér af og til út til að viðra sig.
Í vikunni var svo stafurinn N krufinn til mergjar og 4 ára börnin fengu söguna um E í bókinni Lubbi sem finnur málbein.
Þriðjudaginn 20. desember verður jólaskemmtunin, það verður fluttur helgileikur í sal og síðan fara börnin út í íþróttahús og dansa í kringum jólatréð.