Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

28. nóvember til 2. desember

05.12.2016
28. nóvember til 2. desember

Í vikunni fengu börnin að sjá jólaleikrit. Vináttuverkefnið frá Barnaheillum hófst með bangsanum Blæ sem er táknmynd vináttunnar þar sem börnin fá til eignar lítinn bangsa sem á heima í skólanum á meðan á verkefninu stendur.
Nemendur í sólarhópi fóru í heimilisfræði og bökuðu smákökur. Máluð voru jólatré sem voru skreytt og sett upp á vegg sem jóladagatöl, eitthvað skemmtilegt verður gert á hverjum degi fram til jóla. Fyrsta desember var boðið upp á heitt kakó og kleinur í nónhressingu. Þessa dagana er einnig verið að búa til fullt af jólaskrauti.
Nemendur í mána- og sólarhópum (5 ára) lærðu um stafinn E. Að venju var athugað hverjir ættu E í nafninu sínu auk þess sem leitað var að stafnum víða í umhverfinu eins og t.d. í orðum um mánuðina sem eru upp á veggjunum. Börnin drógu stafina á blað og unnu stafaverkefni. Nemendur í stjörnuhópnum (4 ára) lásu um stafinn L í bókinni "Lubbi sem finnur málbein".  

Því miður er lúsin mætt í skólann og var send heim tilkynning um hvernig bæri að taka á því verkefni að fjarlægja hana. Í næstu viku verður svokallað jólaþema hér í skólanum. Þá daga verður hefðbundin starfsemi bekkjarins brotin upp og öll börnin í skólanum föndra jólamuni. Þannig munu allir nemendur skólans blandast í hópa, alveg frá 4/5 ára og upp í 7. bekk og föndra eitt verkefni, hvorn daginn. Afraksturinn verður svo seldur á jólamarkaði skólans 14. desember og ágóðinn gefinn í gott málefni sem börnin velja fyrirfram í sameiningu. Myndir frá liðinni viku eru komnar í myndasafn skólans.

Til baka
English
Hafðu samband