Lokaorð
Eftir skemmtilegan vetur hefur sumarið tekið á móti okkur með brosi á vör. Það er því tilvalið að renna aðeins yfir allt það starf sem við höfum verið að gera í vetur en undanfarna mánuði höfum við verið mjög dugleg að finna okkur eitthvað skemmtilegt og áhugavert að gera. Meðal annars hafa krakkarnir í 5 ára bekk skellt sér í skíðaferð, farið í leikhús í Kúlunni og á listahátíð á Vífilsstaðatúni, fengið Ellu umferðatröll og slökkviliðið í heimsókn, farið í umferðaskólann og í menningarferð í Hörpuna til að sjá Maxímús.
Nemendur sáu tvisvar sinnum í vetur um morgunsamveruna þar sem þau sýndu listir sínar fyrir framan alla nemendur og starfsfólk í skólanum. Þeir sýndu meðal annars dans, fluttu tónlist, sýndu töfrabrögð, sögðu brandara og sungu fyrir áhorfendur.
Annars var haldið fast í allar hefðir og dundað við að gera jólaskraut, bolluvendi og svo var blásið úr eggjum til að búa til páskaskrautið.
Bakstur, íþróttir, tónmennt og val með 1. bekk nutu svo alltaf mikilla vinsælda í vetur og þótti börnunum alltaf jafn gaman í þeim stundum. Þá vorum við dugleg að fara í gönguferðir, leysa ýmis verkefni, læra og leika okkur í spjaldtölvunum, kynnast stöfunum og hljóðum þeirra og leika okkur úti. Einnig höfum við haldið sólarveislur, tekið þátt í skólaþingum, ljóðasamkeppni og skólahlaupi ásamt því að fara í vorferð í Heiðmörk með öllum nemendum og starfsfólki í Flataskóla.
Veturinn hefur verið skemmtilegur og fróðlegur og fer nú flottur hópur af börnum í 1. bekk.