Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Starfið í nóvember

26.11.2013
Starfið í nóvemberStærðfræði í spjaldtölvum
Undanfarið höfum við verið að skoða, vinna og leika okkur með stærðfræðitáknin plús (+) og „jafnt og“ (=), einnig höfum við verið að æfa okkur að telja á ensku og flokka. Við einbeitum okkur að vinnu með hlutbundna stærðfræði og notum því mikið af hjálpargögnum þegar við vinnum með stærðfræðiþrautirnar. Spjaldtölvuverkefnið vekur mikinn áhuga og eru börnin ávallt spennt og virk í þeim tímum. 

Samstarf með 1. bekk
Í vetur hafa krakkarnir í 5 ára bekk og krakkarnir í 1. bekk hist tvisvar sinnum í viku. Á mánudögum er um skipulagt hópastarf að ræða þar sem börnin fara í skiptum og blönduðum hópum í gulu, rauðu, grænu eða bláu stofurnar. Þar er föndrað og/eða leyst ýmist skemmtileg verkefni . Á föstudögum er svo um val að ræða, en þá geta krakkarnir valið á milli ákveðinna verkefna eða leikstunda.


Baráttudagur gegn einelti
Föstudagurinn 8. nóvember var alþjóðlegur baráttudagur gegn einelti. Við tókum að sjálfsögðu fullan þátt og ræddum um einelti, hvað það er, hve slæmt það er og hvernig við getum komið í veg fyrir það. Eftir skemmtilegar umræður fundum við í sameiningu fjórar setningar eða orð sem okkur þótti passa vel við daginn og bjuggum til veggspjöld með þeim. Á veggspjöldunum okkar stóð: 
  • Vinátta
  • Öllum á að líða vel
  • Ekki skilja útundan
  • Góð hvert við annað
Eftir hádegi kíktum við svo í heimsókn til krakkanna í 7. bekk og spiluðum við þá. 

Fyrstu skrefin í heimilisfræði
Nú ætlum við í 5 ára bekk að fara einu sinni í mánuði í heimilisfræði. Farið er yfir mikilvægi þess að þvo sér vel um hendur áður en hafist er handa, hafa hreint í kringum okkur og hve miklu máli það skiptir að ganga vel um. Fyrsta verkefnið í vetur var að gera kókoskúlur og munum við búa til eitthvað jólalegt næst. 

Myndir frá skólastarfinu í nóvember eru í myndasafni skólans.

Til baka
English
Hafðu samband