Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Unnið er  markvisst að  þróunarverkefni við að innleiða námsmenningu leiðsagnarmats  með það að markmiði að skapa lærdómssamfélag sem leggur áherslu á námsmenningu sem einkennist af hæfnimiðuðu leiðsagnarnámi, einnig kallað leiðsagnarmat. 

Með námsmenningu leiðsagnarnáms sem einkennist af skýrleika og virkni nemenda er hægt að stuðla að meiri námsárangri nemenda. Skýrleikinn felur það í sér að nemendum er ljóst hvert þeir stefna og til hvers er ætlast af þeim og þeir fá markvissa upplýsandi endurgjöf í námsferlinu sem gerir þeim kleift að bæta sig í því sem þeir þurfa að bæta sig í. Virkni nemenda felur það í sér að þeir ræða nám sitt markvisst, taka afstöðu í eigin námi og eru meðvitaðir um eigin áhrif á nám sitt og hvernig þeir geta bætt sig. 

Skólaárið 2021-2022 var unnið  markvisst að því að innleiða námsmenningu leiðsagnarnáms og kennarar fengu kynningar, lásu um, gerðu tilraunir og ígrunduðu hversvegna, hvernig og hvað þeir geta þróað í sínu starfi til að starfa í anda leiðsagnarnáms. 
Markmiðið með þessu er að skólastarfið verði sífellt sem árangursríkast fyrir nemendur.

Áhersla vetrarins á innleiðingu leiðsagnarnáms hélst jafnframt í hendur við breytingar á námsmati skólans sem nú fer fram með mati á framvindu með hliðsjón af hæfniviðmiðum aðalnámskrár.

Þegar leiðsagnarnám einkennir starfið í kennslustofunni sést að nemendur eru virkir þátttakendur í eigin námi, þeir vita til hvers er ætlast af þeim, hvert þeir stefna og hvernig þeir komast þangað.
Markvisst skipulag kennslustunda, samræður um nám og vel grunduð endurgjöf eru lykilþættir í leiðsagnarnámi. Til að sú námsmenning geti einkennt starfið í kennslustofum þurfa kennarar að hafa miklar væntingar til allra nemenda, nemendur verða að finna fyrir þeim væntingum og traust og hugarfar vaxtar að ríkja í kennslustofunni.
Mistök eru viðurkennd sem hluti af lærdómsferli og þeim er fagnað sem lærdómstækifærum. Ef nemendur kunna ekki eitthvað ennþá þýðir það að þeir þurfa að æfa sig meira eða fara nýjar leiðir til að öðlast leiknina/færnina/hæfnina og þannig mynda þeir nýjar tengingar í heilanum.
Þróunin þarf að felast í tvennu, breyttum viðhorfum og breyttum starfsháttum í kennslustofunni.
Skólaárið 2021-2022 tókum við fyrstu  fyrstu skrefin í markvissari innleiðingu leiðsagnarnáms. 
Fjallað var um og gerðar tilraunir með :
· Námsmenningu
· Hæfnimiðað nám, námsmarkmið og viðmið um árangur
· Hlutdeild og virkni nemenda
· Endurgjöf

Sjö kennarar skólans voru í leiðtoganámi á vegum Menntafléttunnar til að leiða kennarahópa í innleiðingu leiðsagnarnáms í hvetjandi námsumhverfi. Markmið námskeiðsins var að styrkja leiðtoga við að leiða hóp samkennara sinna í námssamfélagi með samræðum um leiðsagnarnám.
Allir kennarar og stjórnendur skólans tóku  þátt í innleiðingunni, haldnir voru 13 fundir.

Markmiðið er að menntun nemenda verði árangursríkari og nemendur ánægðari í skólanum, en um langtímaverkefni er að ræða.
Ef vel tekst til munu nemendur verða:
· meðvitaðri um eigið nám
· virkari þátttakendur í sínu eigin námsferli
· betri námsmenn
· tilbúnari að glíma við viðfangsefni sem reyna á þá

Skólinn verður einnig sterkara námssamfélag þar sem kennarar skólans hafa fengið tóm til að gera tilraunir, þróa og ígrunda eigin nálgun í námi og kennslu og ræða saman í smærri hópum undir stjórn jafningja.
Innleiðing leiðsagnarnáms mun halda áfram næstu árin og von okkar er sú að það einkenni starfið í öllum kennslustofum á næstu þremur til fimm árum og höfum við tengt þætti í innra mati skólans við innleiðingu leiðsagnarnáms svo við getum fylgst með hvernig okkur gengur. Lögð er áhersla á leiðbeinandi kennsluhætti og fræðslu og þróun sem lýtur að framgangi þeirra. Þá er horft til nýtingar upplýsingatækni í námi, kennslu og mati.     

Fleiri smærri þróunarverkefni eru einnig í gangi en við reynum að tengja þau sem mest  undir þá regnhlíf sem leiðsagnarnámið er.

Fyrri þróunarverkefni

Réttindaskólaverkefnið

Tveir nemendur úr hverjum árgangi frá 3.- 7. bekk sátu í réttindaráði fyrir hönd nemenda. Ráðið fundaði eftir þörfum yfir veturinn og var misjafnt milli mánaða hversu oft ráðið kom saman og hélst það í hendur við þau verkefni sem lágu fyrir. Umsjónarmenn verkefnisins funduðu oftar og sátu fundi með fulltrúum Unicef á Íslandi.

Að hausti var farið yfir verkefnið með starfsfólki og nemendum. Allir árgangar unnu að bekkjarsáttmála sem tengdist barnasáttmála sameinuðu þjóðanna. Lagðar voru fyrir öryggis-, aðgengis- og viðhorfskannanir fyrir nemendur og starfsfólk. Unnið var með niðurstöður þessara kannanna. Í byrjun nóvember framkvæmdu fulltrúar frá Unicef á Íslandi úttekt á Flataskóla. Þeir ræddu t.d. við fulltrúa foreldra, nemenda og starfsfólks og skoðuðu skólann. Í kjölfarið fékk Flataskóli útnefningu sem Réttindaskóli Unicef á Íslandi við athöfn sem réttindaráðið hafði umsjón með. Allir nemendur skólans unnu að verkefni sem nefndist ,,skilaboð til leiðtoga heimsins“ þar sem þeir tjáðu hvers þeir óskuðu öðrum börnum í heiminum út frá Barnasáttmálanum. Ævar Þór Benediktsson tók við skilaboðunum með loforði um að koma þeim áleiðis.

Stefnt er að því að halda verkefninu áfram næsta vetur og byrja haustið á viku sem er tileinkuð Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna. Einnig er stefnt að því að vinna með ákveðnar greinar sáttmálans á hverjum tíma

Vinaliðar í Flataskóla

Flataskóli fékk styrk úr þróunarstjóði grunnskóla Garðabæjar til að innleiða verkefnið Vinaliðar í Flataskóla

Aðalmarkmið verkefnisins er að bæta samskipti og líðan nemenda í frímínútum. Boðið er upp á fjölbreytt viðfangsefni og unnið að þvi að virkja alla nemendur til þátttöku. Hópur nemenda, vinaliðar, fær sérstaka þjálfun til að stýra og stjórna leikjum og stöðvavinnu í frímínútum.  Markmiðið er því að stuðla að fjölbreyttari leikjum í frímínútum, leggja grunn sem gerir nemendum kleift að tengjast sterkum vinaböndum, minnka togstreitu milli nemenda, hampa góðum gildum, svo sem vináttu, virðingu og því að allir fái að taka þátt. Verkefnið hefur nú fest sig í sessi og er mikil ánægja með það.

 

English
Hafðu samband