Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Í öllum samskiptum milli nemenda Flataskóla er lögð áhersla á  að kenna nemendum  mikilvægi  samkenndar og ætlast er til að þeir temji sér  sjálfstjórn. 

Yfirheiti skólareglanna tekur mið af 3. grein Barnasáttmálans “Það sem er barninu fyrir bestu” enda endurspegla skólareglurnar það að  Flataskóli er réttindaskóli UNICEF og allt okkar starf tekur mið af því. 

Skólareglurnar voru endurnýjaðar haustið 2022. Réttindaráð skólans valdi níu greinar Barnasáttmálans sem það taldi eiga erindi í skólareglur. Ákveðið var að hafa 3. gr. “Það sem er barninu fyrir bestu” sem regnhlífargrein yfir skólareglunum og þurfa reglurnar að taka mið af því sem er best fyrir börnin í skólanum. Mikilvægt er að vera meðvitaður um að réttur hvers barns endar þar sem réttur þess næsta byrjar.

Hópur nemenda skilgreindi hvað nemendur og starfsfólk þurfa að gera til að þau réttindi barna sem greinarnar ná yfir séu virt með því er stuðlað að því að réttindi allra barna í skólanum séu virt og skólabragur verði barnvænn.

Fulltrúar nemenda úr öllum árgöngum skilgreindu hvað nemendur þurfa að gera til að framfylgja reglunum og virða réttindi allra nemenda. Þau skráðu niður hvað þau sem einstaklingar þurfa að gera.

Skólareglur Flataskóla

2. gr. Öll börn eru jöfn

Í skólanum snýst þetta um réttinn til að fá að vera eins og maður er, að allir séu jafnir og sömu réttindi gildi fyrir öll börn. Þess vegna komum við aldrei fram við börn af óréttlæti, skiljum útundan eða stríðum hvert öðru fyrir að vera eins og maður er. Við erum öll jafn mikilvæg og eigum rétt á sömu framkomu frá nemendum og starfsfólki, þó við tölum ekki sama tungumál, lítum ekki eins út, hvort sem við erum rík eða fátæk, höfum ólík trúarbrögð, séum af ólíkum kynjum, eða hvaðan við erum.

Þetta þýðir að ég:

  • Þarf að vera góð/ur við aðra, vera vinir og ekki skilja útundan.
  • Kýli ekki, sparka eða meiði aðra og ef einhver segir stopp þá stoppa ég.
  • Er vinur og leyfi öllum að vera með alveg sama hvernig þeir líta út eða hvar þeir eiga heima.
  • Leyfi öllum að leika sér í kastalanum og gef þeim tækifæri til að vera með.
  • Spyr þá sem eru einir úti að leika hvort þeir vilji vera með.
  •  Tek vel á móti krökkum sem koma nýir inn í hópinn okkar.

7.gr. Nafn og ríkisfang.

  Öll börn eiga sitt nafn sem þýðir að í Flataskóla uppnefnum við ekki hvert annað og gerum ekki grín að nöfnum fólks. Við leggjum okkur fram um að læra rétt nöfn.

Þetta þýðir að ég:

  • Spyr fólk hvaða nafn það vill nota
  • Læri nöfn allra og virði nöfn þeirra
  • Kalla fólk því nafni sem það vill vera kallað
  • Geri aldrei grín að nöfnum annarra eða uppnefni þá

12.gr. Virðing fyrir skoðun barna.

Við eigum rétt á virðing sé borin fyrir skoðunum okkar. Í skólanum snýst þetta um réttinn til að fá að tjá sig um það sem skiptir okkur máli og fá hlustun án þess að gert sé lítið úr manni, hlegið sé að manni eða manni sé strítt fyrir skoðanir sínar og hugmyndir. Það þýðir að ef börn í Flataskóla tjá sig um það sem þeim finnst þá eiga aðrir nemendur og allt starfsfólk að virða þá skoðun svo lengi sem skoðanirnar brjóta ekki á réttindum annarra barna.

Þetta þýðir að ég:

  •   Ber virðingu fyrir öðrum og tala ekki aðra niður
  • Hlusta á aðra og gríp ekki fram í fyrir öðrum
  • Segi ekki ljótt eða særi aðra þegar einhver er að tjá sig
  • Má halda með hvaða liði sem er
  • Tek tillit til annarra
  • Segi aldrei að eitthvað sem aðrir segja sé heimskt
  • Á ekki að hlæja að öðrum
  • Má tjá mig án þess að einhver geri grín að mér
  • Á rétt á að segja mína skoðun

13. gr. Frelsi til að deila hugmyndum sínum.

  Við eigum rétt á að deila hugmyndum okkar og að hlustað sé á okkur. Í skólanum snýst þetta um réttinn til að fá að segja frá sínum hugmyndum, ef við deilum hugmyndum lærum við hvert af öðru. Það þýðir að í Flataskóla eigum við að hlusta hvert á annað og taka hugmyndum allra nemenda vel og ekki dæma persónur út af hugmyndum þeirra eða skoðunum.

Þetta þýðir að ég:

  •   Hlusta á hugmyndir annarra
  • Geri ekki grín að börnum með aðrar hugmyndir en ég er með
  • Sýni öðrum börnum virðingu þegar þau segja frá hugmyndum sínum

15. gr. Félagafrelsi

  Við eigum rétt á velja okkur hóp sem við viljum tilheyra. Þetta þýðir að í Flataskóla fáum við að velja okkur vini og látum ekki önnur börn stjórna því hverjir mega vera vinir okkar. Við brjótum ekki á réttindum annarra þegar við erum með vinum okkar.

Þetta þýðir að ég:

  •   Stjórna ekki öðrum, get bara stjórnað sjálfum/ri mér
  • Læt ekki krakka stjórna mér heldur vel sjálf/ur það sem ég vil og treysti á mig þegar eitthvað er hættulegt
  • Býð öðrum að vera með þó ég sé að leika við besta vin minn
  • Er tilbúin/n að skipta oft um sæti og sitja hjá öllum
  • Leik mér við hvern sem er, ólík kyn geta verið vinir
  • Bið kennara að hjálpa mér þegar er erfitt að finna vini
  • Treysti kennaranum mínum til að hjálpa
  •  Tala fallega við vini mína því þá vilja þeir vera með manni

19. gr. Vernd gegn ofbeldi

Öll börn eiga rétt á að vera ekki beitt ofbeldi. Í skólanum snýst þetta um að öll börn eiga rétt á því að vera laus við ofbeldi í skólanum. Starfsfólk á að passa að enginn upplifi ofbeldi í skólanum. Það þýðir að maður á aldrei að meiða aðra, maður er hugrakkur og segir frá ef maður sér að verið sé að meiða krakka og treystir því að allt starfsfólk hjálpi. Það eiga öll börn í skólanum að vera örugg með að enginn meiði þau, stríði þeim, baktali eða leggi í einelti.

Þetta þýðir að ég:

  •   vil ekkert ofbeldi því þá líður börnum illa.
  • hjálpa þeim sem meiða sig.
  • uppnefni ekki aðra.
  • lem ekki til baka ef einhver meiðir mig, heldur nota orðin mín.
  • læt fullorðinn vita ef einhverjum líður illa eða meiði sig.
  • skil ekki útundan.
  • stríði ekki og ulla ekki á aðra, því þá líður þeim illa í hjartanu.
  • tala ekki illa um aðra.
  • skemmi ekki fyrir öðrum.
  •  ræðst ekki á neinn þó ég fái ekki það sem ég vil.

24. gr. Heilsuvernd, vatn matur, umhverfi

Við eigum rétt á því að hugsað sé um heilsu okkar og að við fáum mat og drykk og umhverfi okkar sé öruggt. Það þýðir að í skólanum erum við erum góð hvert við annað og hjálpumst að. Við göngum vel um umhverfi okkar og látum mat og drykk annarra nemenda vera. Við eigum að bera virðingu fyrir umhverfinu og ekki skemma eigur skólans né gróður á skólalóðinni eða henda rusli. Við tínum upp rusl sem við sjáum. Til að nemendum líði vel á skólalóðinni skal passa að það sé ekki fólk á rafmagnshlaupahjólum eða vespum á skólalóðinni.

Þetta þýðir að ég:

  •   Mæti ekki veik/ur í skólann
  • Legg engan í einelti
  • Er góður við alla svo öllum líði vel í umhverfinu
  • Kem með hollan og góðan mat í skólann
  • Ber virðingu fyrir öðrum
  • Passa upp á svefninn
  • Hoppa ekki í runna
  • Minnka matarsóun, hendi ekki mat – heldur borða hann
  • Læt mat annarra vera
  • Eyði ekki vatni að óþörfu
  • Geng vel um matsalinn
  • Hendi mínu rusli í ruslatunnur
  • Tíni upp rusl sem ég sé
  • Skemmi ekki tré
  • Er ekki á rafmagnshlaupahjóli né vespu á skólalóðinni
  • Stel ekki né fikta í hjólum annarra

29.grein Markmið menntunar

Við eigum rétt á markvissri og uppbyggilegri menntun.Í skólanum snýst þetta um réttinn til að geta lært án þess að verða fyrir truflun frá öðrum og það sé skýrt til hvers er ætlast. Það þýðir að menntun í Flataskóla á að hjálpa börnum með sjálfsmynd sína, hæfileika og færni. Hún hjálpar okkur að læra um réttindi okkar. Til að allir nemendur geti lært þarf að vera vinnufriður og námið að vera fjölbreytt og gagnlegt.

Þetta þýðir að ég:

  • Á ekki að trufla aðra
  • Þarf að hafa vinnufrið til að geta einbeitt mér
  • Á að geta mætt í skólann án þess að verða fyrir truflun
  • Þarf að mæta í skólann
  • Mæti í skólann á réttum tíma og fæ góðan svefn
  • Þarf að einbeita mér
  • Tek virkan þátt í tímum, legg mig fram í öllu námi í skólanum og fylgist með í tímum
  • Á að geta lært án þess að einhver stríði mér
  • Læri heima og les
  • Þarf góða skilgreiningu á því sem ég á að gera
  • Virði aðra nemendur
  • Fylgi reglum skólans
  • Hlusta á það sem kennarinn segir og vinn vel
  • Læri meira en einn hlut
  • Nýti hæfileika mína

31. grein Hvíld, leikur, menning, listir

Við eigum rétt á að leika okkur og að hvíla okkur og ekki bara vera að læra eða æfa allan daginn. Við þurfum að hafa nóg orku og ekki vera rosa þreytt daginn eftir æfingu. Í skólanum snýst þetta um réttinn til að fá rólegan stund í nestis- og matartímum og að vera örugg í frímínútum. Þetta þýðir að við þurfum næði til að hugsa og læra í kennslustundum og geta leikið okkur í friði í frímínútum án þess að þurfa að kvíða því að einhver stríði manni, meiði eða trufli mann.

Þetta þýðir að ég:

  • Mæti úthvíld/ur í skólann
  • Er góð/ur við alla
  • Legg mitt af mörkum til að aðrir fái vinnufrið og masa ekki mikið eða gef frá mér hávaða í tímum
  • Fer eftir fyrirmælum
  • Hugsa um mig en ekki aðra í matsalnum
  • Geng frá eftir mig þegar ég er búin/n að borða
  • Skil ekki útundan og býð öðrum að vera með í leikjum í frímínútum
  • Stríði ekki heldur stoppa stríðni
  • Segi fullorðnum frá ef ég sé einhvern sem er verið að stríða
  • Hjálpa krökkum sem líður illa
  • Læt aðra í friði og leyfi þeim að vera eins og þeir vilja
  • Sýni virðingu og tek tillit til annarra

Á hverju ári eru skólareglur kynntar nemendum og foreldrum þeirra og þær eru birtar á vef skólans. Umsjónarkennarar fjalla um reglurnar, þýðingu þeirra og hlutverk með nemendum eins oft og þurfa þykir. Bekkjarsáttmálar sem unnir eru á haustin taka mið af skólareglum.

 
 

 

English
Hafðu samband