Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Sögu Flataskóla má rekja aftur til ársins 1958 þegar Barnaskóli Garðahrepps var settur í fyrsta sinn. Barnaskóli Garðahrepps var settur þann 18. október 1958 í nýju skólahúsi við Vífilstaðaveg og komst þar með festa á fræðslu barna í Garðahreppi. Þennan fyrsta vetur voru nemendur skólans 137 talsins frá 7 ára til 12 ára aldurs. Vilbergur Júlíusson var ráðinn skólastjóri við stofnun Barnaskólans og gegndi þeirri stöðu allt til ársins 1984, eða í 26 ár. Vilbergur var afar farsæll í starfi og naut mikillar virðingar jafnt barna sem foreldra. 

Byggð jókst hratt í Garðahreppi upp úr 1960 og þann 1. janúar 1976 voru íbúarnir orðnir 4200 og hreppurinn fékk þá kaupstaðarréttindi. Nemendum skólans fjölgaði því ört og var skólinn tví- og þrísetinn um tíma. Byggt hefur verið við skólann í sex áföngum og er skólinn nú einsetinn. Einar Ingimarsson arkitekt hefur komið að hönnun skólahússins að mestu síðastliðna þrjá áratugi. Stækkunin hefur tekist vel þar sem viðbyggingarnar eru tengdar við upphaflega skólahúsið eins og sést á skýringarmyndinni.

Byggingasaga skólahúss

Skólastarfið sjálft hefur einnig tekið miklum breytingum á þeim sex áratugum sem skólinn hefur verið starfræktur og kennsluaðferðirnar orðanar mun fjölbreyttari en tíðkaðist. Til að byrja með fólst kennslan í útlistun kennarans og upplestri nemenda en nú miða kennslu­aðferðir að meiri þátttöku nemenda í kennslunni til að auka sköpunargáfu þeirra, gagnrýna hugsun og styrkja sjálfstraust þeirra svo eitthvað sé nefnt.

Stjórnendur skólans hafa iðulega fylgt kalli tímans og horft til framtíðar við mótun skóla­starfsins. Framtíðarsýn Vilbergs á skólastarfið kemur glöggt fram í grein sem hann skrifaði í Setberg árið 1968: 

Hornsteinn uppeldisins er heimilið. Því verður aldrei breytt. Skólinn getur aðeins stutt það en samvinna er höfuðnauðsyn... Skólinn hefur verið í mótun. Nú þarf skólinn að horfa til framtíðarinnar, hyggja að nýjum og breyttum viðhorfum í kennslu og uppeldi og byggja á fyrri reynslu. 

Vilbergur hefur sannarlega verið framsýnn á skólastarfið því að í aðalnámskrá grunnskóla er kveðið á um samstarf foreldra og skóla:

Menntun og velferð nemenda er sameiginlegt verkefni heimila og skóla og samstarfið þarf að byggjast á gagnkvæmri virðingu, trausti, og upplýsingamiðlun beggja aðila, sameiginlegum ákvörðunum og samábyrgð.  

Enn þann dag í dag er stefna Flataskóla að eiga góða samvinnu við heimilin, hornstein uppeldisins eins og Vilbergur nefnir þau réttilega, en framlag foreldra t.d. í lestrarnámi barna sinna verður seint ofmetið. Þá er foreldra­félag starfrækt við skólann eins og kveðið er á um í  námskránni. Hlutverk þess er m.a. að styðja skólastarfið og efla tengsl heimila og skóla.

Barnaskóli Garðahrepps gegndi ríkara hlutverki í samfélaginu í Garðahreppi en að uppfræða börnin. Bókasafn Garðahrepps var starfrækt í skólanum fyrir alla hreppsbúa og sundlaugin sem byggð var við skólann árið 1970 var opin öllum þegar skólakennslu lauk. Íþróttakennsla fór fram í leikfimissal  í kjallara skólans þar til íþróttahúsið við Ásgarð var tekið í notkun á sjöunda áratugnum. Íþróttasalurinn hýsti einnig danskennslu frá Dansskóla Heiðars Ástvaldssonar á sjöunda áratugnum. Skólahúsnæðið var því vel nýtt í þágu hreppsbúa.

Fimleikadömur                    Mynd: Stúlkur í fimleikum um 1955.

Skólahaldið er í stöðugri þróun en nýir siðir fylgja gjarnan nýju fólki. Sjö skólastjórar hafa stýrt skólanum og mótað skólastarfið þessi sextíu ár sem hann hefur verið starfræktur. Sigrún Gísladóttir tók við skólastjórastöðu Flataskóla 1984 af Vilbergi og gegndi starfinu til ársins 2004. Haustið 1997 fór Sigrún í námsleyfi og leysti þá Þorbjörg Þóroddsdóttir, aðstoðar­skólastjóri hana af sem skólastjóri og aftur vorið 1999. Skólaárið 2002 til 2003 fór Sigrún aftur í leyfi og Inga Þórunn Halldórsdóttir leysti hana af. Þegar Sigrún lét af störfum sem skólastjóri 2004 tók Sigurveig Sæmundsdóttir við starfinu. Sigurveig var skólastjóri til ársins 2010 þegar hún lét af störfum vegna aldurs. Þá gegndi Helga María Guðmundsdóttir stöðu skólastjóra skólaárið 2010 til 2011 þegar Ólöf Sigurbjörg Sigurðardóttir tók við starfinu. Haustið 2020 tók Ágúst Frímann Jakobsson við stöðu skólastjóra Flataskóla. Hann er í leyfi skólaárið 2023-2024 og H Hanna Friðriksdóttir gegnir stöðu skólastjóra það skólaár. Vorið 2024 var H Hanna Friðriksdóttir ráðin sem skólastjóri Flataskóla.

Sýn Flataskóla er að ýta  undir seiglu, sjálfstæði, skapandi hugsun, sjálfstjórn og  samkennd nemenda og starfsfólks. Námið í skólanum á að vera áhugavert, gerðar eru skýrar væntingar til nemenda og öllum gert kleift að vaxa. Gildi skólans eru , menntun, árangur og ánægja.  Skólinn byggir á trausti og festu eftir rúmlega 60 ára skólastarf.

Skólasaga Garðahrepps - Flataskóli  
Ágrip af skólasögu Garðahrepps

Til baka

English
Hafðu samband