Flatóvision 2014
Flatóvisionhátíðin var haldin í skólanum í sjötta sinn þann 14. mars s.l. en þetta verkefni hefur verið árlegur viðburður í skólastarfinu frá 2009. Keppnin er haldin til þess að finna lag í eTwinningverkefnið Schoolovision sem er evrópst samskiptaverkefni á vegum eTwinning sem skólinn tekur þátt í ásamt um 40 öðrum skólum. Sigurlag Flatóvision að þessu sinni var lagið "Eftir eitt lag" sem fjórði bekkur flutti. Lagið er eftir Bergrúnu Írisi og Ástu Björgu og var flutt í söngvakeppni sjónvarpsins 2014. Í Flatóvision fá nemendur úr 4. til 7. bekk að koma með atriði (lag og dans) sem þau velja sjálf og æfa (með tilliti til reglna sem settar eru hverju sinni). Dómarar að þessu sinni voru strákarnir úr hljómsveitinni "Of Monsters and Men" þeir Ragnar söngvari og Arnar trommuleikari, einning voru Hjördís fyrrum kennari við skólann, Jóna ritari við skólann og tveir fulltrúar nemendaráðs Garðaskóla og fyrrum nemendur Flataskóla þau Urður og Davíð Laufdal. Perla og Diljá skemmtu með undirleik og söng í hléi á meðan dómarar báru saman ráð sín. Var samdóma álit manna að framlag nemenda hefði aldrei verið flottara. Myndir frá hátíðinni má skoða í myndasafni skólans.