Lög Foreldrafélags Flataskóla
1. grein
Félagið heitir “Foreldrafélag Flataskóla”. Félagar eru foreldrar og forráðamenn nemenda Flataskóla.
2. grein
Markmið félagsins eru að vinna að: -velferð og réttindum nemenda skólans hvað menntun varðar-samstarfi heimilis og skóla -almennum framförum skólans
3. grein
Til að ná fram markmiðum sínum hyggst félagið: -efla kynni foreldra innbyrðis og við starfsmenn skólans -efla þekkingu foreldra á starfsemi skólans
-fylgja eftir starfi bekkjarfulltrúa í hverjum bekk í samstarfi við umsjónarkennara -styrkja menningar- og félagslíf innan skólans
-veita fjárstyrk til afmarkaðra verkefna innan skólans -koma á umræðu- og fræðslufundum um uppeldis- og skólamál í samráði við skólann.
4. grein
Starf félagsins byggist á skipulögðu starfi foreldra og forráðamanna nemenda í samvinnu við starfsfólk skólans. Til að mynda tengingu milli foreldra, umsjónarkennara og stjórnar foreldrafélagsins skulu fyrir hvern bekk starfa að minnsta kosti tveir bekkjarfulltrúar úr hópi foreldra/forráðamanna sem valdir eru á haustfundi hvers árgangs í byrjun skólaárs.
5. grein
Bekkjarfulltrúar skulu hafa umsjón með starfi í þágu síns bekkjar í samráði við umsjónarkennara. Stjórn félagsins sendir bekkjarfulltrúum árlega að hausti upplýsingar um starf bekkjarfulltrúa. Bekkjarfulltrúar starfa á vegum foreldrafélagsins. Bekkjarfulltrúar mynda fulltrúaráð foreldrafélagsins. Hlutverk bekkjarfulltrúa er að efla og styrkja samstarf foreldra og barna og leitast við að treysta samband heimilis og skóla innan hverrar bekkjardeildar með nánu samstarfi við umsjónarkennara. Stjórn foreldrafélagsins ásamt umsjónarkennara ber ábyrgð á að í upphafi skólaárs séu kosnir tveir til þrír fulltrúar forráðamanna úr hverjum bekk.
6. grein
Stjórn félagsins skal skipuð einum fulltrúa foreldra/forráðamanna fyrir hverja bekkjardeild 1.-7.bekkja,
alls sjö foreldra/forráðamenn. Fulltrúa bekkjardeildar skal velja úr hópi bekkjarfulltrúa eða úr hópi
annarra foreldra/forráðamanna. Kjósa skal minnst þrjá og mest sjö í varastjórn foreldrafélagsins.
Varastjórn hefur það hlutverk að kynna sér og styðja við störf stjórnar s.s. með þátttöku í undirbúningi
stórra verkefna.
Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar skal kosinn formaður, varaformaður, ritari og gjaldkeri.
Stjórn félagsins skal gera starfsáætlun að hausti sem kynnt er foreldrum. Almennt skal stjórn funda einu
sinni í mánuði og tekur hún þá fyrir erindi sem til hennar er vísað, mál sem falla undir verksvið félagsins
sbr. 3 gr. og önnur mál sem hún telur horfa til framfara.
7. grein
Boðað skal til aðalfundar félagsins í september, með tölvupósti með minnst 3ja virkra daga fyrirvara. Til
aðalfundar boðar formaður félagsins í samráði við skólastjóra eða staðgengil hans. Í fundarboði skal
kynna efni fundarins ásamt lagabreytingum. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum í öllum málum.
Á aðalfundi félagsins skal kjósa nýja stjórn. Stefnt skal að því að tveir stjórnarmenn séu úr fráfarandi
stjórn
Verkefni aðalfundar:
· Kosning fundarstjóra og fundarritara
· Skýrsla stjórnar
· Skýrslur nefnda
· Lagabreytingar
· Reikningar lagðir fram til samþykktar
· Kosning fulltrúa í foreldrafélag
· Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
- Skýrsla fulltrúa foreldra í skólaráði
· Kosning fulltrúa foreldra í skólaráð
· Önnur mál
8. grein
Stjórn foreldrafélagsins getur skipað nefndir um afmörkuð verkefni. Stjórnin ber ábyrgð á störfum nefnda
og setur þeim erindisbréf.
9. grein
Fulltrúaráðið skal stefna að því að koma saman eigi sjaldnar en einu sinni á skólaárinu og oftar ef
þurfa þykir. Fyrsti fundur skal haldinn í upphafi skólaárs. Stjórn félagsins undirbýr og boðar til þessara
funda. Þar skulu rædd mál er varða markmið og starf foreldrafélagsins, starf foreldra í bekkjardeildum
og verkefni fulltrúaráðs. Fulltrúaráð skal aðstoða stjórn félagsins í stærri verkefnum.
10. grein
Stjórn foreldrafélagsins skal ekki sinna klögumálum eða hafa afskipti af vandamálum er upp kunna að
koma á milli einstakra foreldra og starfsmanna skólans.
11. grein
Stjórn foreldrafélagsins er heimilt að óska eftir því að foreldrar greiði valfrjálst framlag til félagsins. Þetta
framlag er innheimt árlega og ákveðið á aðalfundi.
12. grein
Ákvörðun um slit félagsins verður tekin með einföldum meirihluta á stjórnarfundi og renna þá eignir þess
til skólans.
13. grein
Lögum þessum má breyta með einföldum meirihluta á aðalfundi, enda sé lagabreytinga getið í
fundarboði.