Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Viðmið um samskipti heimila og skóla

Viðmið þessi eru sett fram til að tryggja góð og örugg samskipti heimila og skóla. Foreldrar og forráðamenn eru beðnir um að virða þessar leiðbeiningar.

Tölvupóstur

 • Aðal samskiptamáti kennara við foreldra er í gegnum tölvupóst og síma
 • Kennarar lesa tölvupósta a.m.k. einu sinni á dag, staðfesta móttöku á erindi foreldra og leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst
 • Gert er ráð fyrir að tölvupóstum sé svarað á hefðbundnum vinnutíma kennara
 • Ætlast er til að tölvupóstar séu eingöngu notaðir til að senda upplýsingar eða spyrjast fyrir um hagnýt mál
 • Viðkvæm mál skal fjalla um með öðrum hætti en í tölvupósti

Sími/tilkynningar forfalla/leyfisveitingar

 • Foreldrar hafi samband í gegnum aðalnúmer skólans  ef þeir þurfa að ná í kennara. Best er að að senda tölvupóst á flataskoli@flataskoli.is og skilaboðum er komið áleiðis til kennara sem hefur samband síðar. Foreldrar geta ekki haft beint símasamband við kennara meðan á kennslu stendur.  Ef brýna nauðsyn ber til  um skjóta afgreiðslu skal taka það fram  í símtali. Foreldrar eru beðnir um að hafa ekki samband við kennara í persónuleg símanúmer þeirra.
 • Ef foreldrar þurfa að ná í börn sín á skólatíma, þarf að hafa samband við skrifstofu, sem sér um að koma sambandi á eða upplýsingum til nemanda. Börnum er óheimilt að nota síma sína á skólatíma og því ekki gert ráð fyrir að foreldrar hringi beint í börn sín þó þau séu með síma í töskunni.
 • Foreldrar tilkynni veikindi daglega beint á Mentor. Það er gjarnan mikið álag á símkerfi skólans og því óskum við sérstaklega eftir því að veikindi séu tilkynnt á Mentor. Slíkar tilkynningar eiga að berast fyrir klukkan 8:30. Hér eru leiðbeiningar um veikindaskráningar á Mentor.is.
 • Standi veikindi yfir í nokkra daga ber að tilkynna þau fyrir hvern dag. Ef misbrestur verður á veikindatilkynningum er litið svo á að um óheimila fjarvist sé að ræða
 • Ef foreldrar vilja óska eftir leyfi fyrir börn sín frá skóla þá hefur umsjónarkennari heimild til að veita leyfi í tvo daga. Ef um lengri leyfi er að ræða þarf að sækja sérstaklega um það í gegnum mentor.is eða mentorappið. Leiðbeiningar má finna hér.  Skólastjórnendur fara yfir leyfisbeiðnir og upplýsingar um að   afgreiðslu þeirra er lokið koma í gegnum mentor.
  Foreldrar eru beðnir um að virða skólatíma barnanna og taka þau ekki úr skóla á skólatíma nema brýn nauðsyn sé.
 • Nám nemenda í leyfum þeirra er að fullu á ábyrgð foreldra. Ekki er hægt að gera ráð fyrir að kennarar útvegi nemendum sérstakt námsefni meðan á leyfi stendur.

Upplýsingar frá skólanum til foreldra

 • Haustkynningarfundur er haldinn í september þar sem umsjónarkennarar hitta foreldra, kynna áætlun vetrarins og ýmislegt sem snertir skólagöngu barnanna. Foreldrar eru hvattir til að sækja þessa fundi enda koma þar fram mikilvægar upplýsingar um skólastarfið. 
  Viðmið um samskipti foreldra og kennara í Flataskóla
 • Á heimasíðu skólans er að finna allar helstu upplýsingar um skólastarfið
 •  Umsjónarkennarar senda vikulega upplýsingar um starfið í umsjónarbekknum með tölvupósti eða fréttatilkynningum í Mentor 
 •  Einn foreldrasamtalsdagur er á haustönn þar sem foreldrar og nemendur hitta kennara og fara yfir ýmis mál. Í upphafi vorannar er fundur þar sem farið er yfir mat á námi nemenda.
 • Í apríl/maí ár hvert er skóladagatal næsta árs lagt fram og gefst þá foreldrum tækifæri til að skipuleggja frí með tilliti til skóladagatalsins.

„Facebook“ og aðrir samskiptamiðlar

 • Kennarar eða aðrir starfsmenn skólans stofna ekki sérstakan „facebook-hóp“ fyrir foreldra barna í umsjón, heldur senda tölvupóst með upplýsingum eða hafa samband símleiðis.   
 • Ekki er ætlast til að kennarar tengist „facebook-síðum“ árganga eða setji inn efni á slíkar síður.
 • Almenna reglan er sú að starfsmenn skólans og foreldrar og/eða nemendur gerast ekki vinir á „facebook“ eingöngu vegna tengsla í skólanum 
 • Foreldrar þurfa að láta skólann vita ef óheimilt er að birta myndir af börnum þeirra á vefsíðum skólans eða öðru útgefnu efni á vegum skólans 

Heimsóknir forelda í skólastofur

Starfsfólk Flataskóla hvetur foreldra til að kynna sér daglegt starf barna sinna í skólanum og skulu heimsóknir í skólastofur ávallt vera í samráði við kennara. Því eru foreldrar beðnir um að hafa samband við kennara ef þeir vilja koma í heimsókn í kennslustund. 

Árgangasíður á „facebook“

Stjórnendur og skólaráð Flataskóla vilja biðja þá foreldra/forráðamenn sem stjórna aðgengi á „facebook-síðum“ ákveðinna nemendahópa að setja neðangreindan texta inn á þær. Með þessum skilaboðum er reynt að stuðla að vandaðri umræðu þar sem nærgætni í garð nemenda, foreldra og starfsmanna skólans er í hávegum höfð. 

„Tilgangurinn með þessari síðu er m.a. að efla samstarf milli foreldra varðandi börn sín og birta upplýsingar frá bekkjarfulltrúum og foreldrafélaginu um félagsstarf nemenda. Hér á aldrei að fjalla um mál einstakra nemenda, nemendahópa, foreldra né starfsmanna skólans. Ef foreldrar telja að eitthvað sé ábótavant varðandi skólastarfið eru þeir beðnir um að hafa beint samband við kennara eða stjórnendur skólans“.

English
Hafðu samband