Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Umsjónarkennari er alltaf sá aðili sem foreldrum  er bent á að hafa samband við fyrst þegar upplýsa þarf um breytingar á högum nemenda og einnig þegar grunur um námsvanda, samskiptaörðugleika, einelti eða aðra vanlíðan kviknar.

Einnig er hægt að hafa samband við deildarstjóra stiga og námsráðgjafa þegar það á við eða skólastjóra ef foreldrum finnst mál ekki komast í skilvirkt ferli. 

Hægt er að hafa samband með því að hringja  símanúmer skólans og biðja um að umsjónarkennari hringi eða senda tölvupóst beint til umsjónarkennara og biðja um símtal eða fund. Sama á við þegar foreldrar vilja ná sambandi við stjórnendur eða námsráðgjafa.

Það sem gerist heima getur haft áhrif á hegðun og ástundum nemenda og því er mikilvægt að upplýsa skólann um allar breytingar sem verða á högum barna. Nýr fjölskyldumeðlimur, skilnaður foreldra, veikindi í fjölskyldu, yfirvofandi flutningar og dauðsföll í fjölskyldum eru allt atvik sem geta haft mikil áhrif á tilfinningalíf barna og getur brotist út með áður óþekktri hegðun í skóla. Það auðveldar starfsfólki skóla að bregðast rétt við ef þau eru upplýst um hvað veldur hegðuninni og því er mikilvægt að upplýsingum sé komið til skólans.

Samstarf heimila og skóla um velferð nemenda getur skipt sköpum í lífi barna.  Því er mikilvægt að fullorðna fólkið í kringum börnin leggi sig fram um að eiga heiðarlegt og uppbyggilegt samstarf. 

English
Hafðu samband