Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Samkvæmt lögum um farsæld barna skulu öll börn og foreldrar hafa aðgang að tengilið þjónustu í þágu farsældar barns eftir því sem þörf krefur. Frá fæðingu og þar til barn hefur nám í leik- eða grunnskóla er tengiliður starfsmaður heilsugæslustöðvar eða heilbrigðisstofnunar í heilbrigðisumdæmi barns. Sama á við ef þörf er á samþættingu þjónustu á meðgöngu. Þegar barn er við nám í leik-, grunn- eða framhaldsskóla er tengiliður starfsmaður skólans þar sem barn er við nám. Ef það á ekki við er tengiliður starfsmaður félagsþjónustu þess sveitarfélags þar sem barn á lögheimili. Tengiliður skal hafa viðeigandi þekkingu á þjónustu í þágu farsældar barns. Hann má ekki vera tengdur barni eða foreldrum þess með þeim hætti sem mundi leiða til vanhæfis.

Í Flataskóla hafa verið skipaðir tveir tengiliðir, þær Helga Melsteð, deildarstjóri stoðþjónustu og Katrín Anna Eyvindardóttir, námsráðgjafi.

Hlutverk tengiliða farsældar er:

• að hafa hagsmuni barns að leiðarljósi.
• að rækja hlutverk sitt í samstarfi og samráði við foreldra og barn.
• að veita upplýsingar um þjónustu í þágu farsældar barns.
• að aðstoða við að tryggja aðgang að frummati á þörfum barns.
• að skipuleggja og fylgja eftir samþættingu fyrsta stigs þjónustu í þágu farsældar barns.
• að koma upplýsingum til sveitarfélags um þörf fyrir tilnefningu málstjóra.
• að taka þátt í starfi stuðningsteymis eftir því sem við á.

Sjá nánar á hjá Barna- og fjölskyldustofu https://www.bofs.is/farsaeld/tengilidir/

 


English
Hafðu samband