Brúum bilið milli leik- og grunnskóla
Umtalsverð tengsl eru á milli Flataskóla og leikskóla bæjarins. Unnið er eftir starfssamningi sem kallaður er Brúum bilið. Markmiðið með þessum samningi er að auðvelda nemendum flutning úr leikskóla í grunnskóla.
Kennarar fyrstu bekkja og deildarstjóri yngra stigs Flataskóla fara á fund með tengiliðum leikskólanna í Garðabæ um miðjan október ár hvert. Þar kynnir Flataskóli námskrá sína og gefst þá tækifæri fyrir skólana til að samræma starfið á milli skólastiga. Í nóvember fara kennarar fyrstu bekkja Flataskóla í heimsóknir í leikskólana.
Eftir heimsóknir kannaranna koma leikskólakennarar úr viðkomandi leikskólum í heimsókn í Flataskóla. Í mars senda leikskólarnir skólanum lista um væntanlega nemendur í 1. bekk. Í apríl koma væntanlegir nemendur í heimsókn í Flataskóla með starfsmanni leikskólans. Einn leikskóli kemur í senn. Skólastjórnendur taka á móti börnunum, ræða við þau og sýna þeim skólahúsnæðið.
Í apríl fara deildarstjóri yngra stigs og deildarstjóri sérkennslu í heimsóknir á leikskólana og funda með leikskólakennurum um væntanlega nemendur Flataskóla. Umsjónakennarar leikskólans og talmeinafræðingur veita Flataskóla upplýsingar um niðurstöður úr hljóðkerfisvitundarprófinu Hljóm – 2, skimun talmeinafræðings og málþroskaprófum þar sem það á við. Talmeinafræðingar hitta umsjónarkennara 1. bekkja í Flataskóla í upphafi haustannar og kynna niðurstöður úr prófunum.
Í maí heimsækja leikskólabörnin Flataskóla öðru sinni. Þá er börnunum dreift á nokkra bekki og fá að taka þátt í hefðbundnu skólastarfi. Eins og í fyrri heimsókninni fylgir starfsmaður leikskólans hópnum og einn leikskóli kemur í senn. Þess er sérstaklega gætt að bjóða í þessar heimsóknir þeim börnum sem sækja ekki leikskóla eða eru á leikskólum annarra bæjarfélaga en eru væntanlegir nemendur í fyrsta bekk Flataskóla.