Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Námsmat

Námsmat skiptist í leiðsagnarmat og lokamat. Símat, sjálfsmat og jafningjamat eru einnig vinnubrögð í námsmati sem geta flokkast undir leiðsagnarmat eða lokamat eftir því hvernig unnið er úr því eftir á.

Símat, jafningjamat og sjálfsmat eru allt aðferðir sem notaðar hafa verið í Flataskóla og einnig hafa kennarar fikrað sig áfram með leiðsagnarmat og gert tilraunir með ákveðna þætti þess.

Í Flataskóla hefur verið hefð fyrir því að lokamat nemenda er sent heim að vori í öllum árgöngum. Lokamat metur stöðuna eins og hún er í lok ákveðins tímabils eða vinnuferlis. Matið hefur verið birt í formi umsagnarorða sem byggja á tölulegum kvarða. Gögnin sem liggja að baki matinu hafa að stórum hluta verið próf og kannanir. Matið getur hafa tekið mið af einu stóru lokaprófi sem lagt er fyrir að vori eða verið meðaltal útkomu úr mörgum minni prófum. Þessa aðferð við birtingu á mati nemenda þekkja foreldrar vel því hún hefur verið við líði lengi og er því kunnugleg.

Í Aðalnámskrá grunnskóla frá 2011/2013 er ekki gerð krafa um að lokamat sé lagt á vinnu nemenda nema við lok grunnskólagöngu þ.e. við útskrift úr 10. bekk. Við lok 10. bekkjar er ætlast til að skólar skili nemendum lokamati með matskvarða sem byggir á bókstöfum sem hér segir:  

  • A (fá þeir sem skara fram úr)
  • B+ (fá þeir sem vantar lítið upp á skara fram úr)B (fá allir þeir sem ná þeim markmiðum sem stefnt var að)
  • C+ (fá þeir sem vantar lítið upp á að ná B
  • C (fá þeir sem ekki ná alveg öllum þeim markmiðum sem stefnt var að)
  • D (fá þeir sem ná litlu af þeim markmiðum sem stefnt er að).

Í öðrum árgöngum er hverjum skóla í sjálfsvald sett hvort þeir skila nemendum lokamati, en gert er ráð fyrir að nemendur fái leiðsagnarmat í öllu námsferlinu. Skólar hafa einnig val um hvers konar matskvarða þeir nota. 

Sú aðalnámskrá sem er rammi um skólastarf í dag gefur skólum því mjög mikið faglegt frelsi til að skipuleggja nám, kennslu og námsmat en til að vinna í hennar anda þurfa skólar að þróast markvisst í átt að hæfnimiðuðu námi og leiðsagnarmati og það er mikil fagleg áskorun.

Þróun námsmats í Flataskóla

Kennarar Flataskóla hafa fengið fræðslu um leiðsagnarmat undanfarin ár og fyrstu skrefin yfir í hæfnimiðað leiðsagnarnám voru tekin skólaárið 2020-2021 með fræðslu, samræðu og tilraunum. Markvissari skref sem nemendur og foreldrar finna meira fyrir verða svo tekin skólaárið 2021-2022 þegar við stefnum að því að færa okkur alfarið yfir í leiðsagnarmat. Leiðsagnarmat byggir á markvissri endurgjöf jafnt og þétt í námsferlinu þar sem nemendum er leiðbeint um hvað þeir þurfa að gera betur til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að. Markmiðin sem stefnt er að eru ljós fyrirfram og einnig viðmið um árangur.

Leiðsagnarmat er víðfeðmara en hefðbundið námsmat því það er í raun námsmenning og stefnt er að því að skapa námsmenningu leiðsagnarmats í hverri kennslustofu í Flataskóla og kalla þá menningu leiðsagnarnám.

Áfram verður lögð áhersla á að námsmat fari fram jafnt og þétt á námstíma nemenda enda er það órjúfanlegur hluti náms og kennslu. 

Vægi prófa minnkar því matsaðferðirnar verða enn fjölbreyttari en áður og verða að hæfa þeim viðfangsefnum sem meta skal hverju sinni. Í aðalnámskrá er lögð áhersla á að nemendur fái tækifæri til að sýna fram á hæfni sína á fjölbreyttan hátt og það styður okkur í því að draga úr vægi prófa.

Kennarar geta þó áfram lagt fyrir próf til að átta sig á því hvað þarf að vinna meira með hverjum nemanda. Í stað þess að gefa eingöngu tölur er mikilvægt að taka fram hvaða þætti nemandinn þarf að æfa sig meira í,  t.d. “það er ljóst að þú getur lagt saman í huganum en þú þarft að æfa  þig betur í að merkja inn á talnalínuna og vanda uppsetningu”, ef það eru þættirnir sem verið var að prófa kunnáttu nemenda í.

Námsáætlanir breytast og taka mið af hæfnimiðuðu námi, nám nemenda verður metið með öðrum hætti, matskvarðar breytast og birting námsmats verður með nýju sniði.

Leiðsagnarnám

Þegar tekst að skapa námsmenningu leiðsagnarnáms í kennslustofunni verða nemendur virkari þátttakendur í eigin námi, þeir vita til hvers er ætlast af þeim, hvert þeir stefna og hvernig þeir komast þangað. Kennari lagar kennsluna að nemendum og nýtir sér endurgjöf frá nemendum til að stuðla að því að nemendur séu að vinna á þeim stað sem þeim hentar. Ekki með of létt viðfangsefni og ekki of erfið.

Skipulag kennslustunda er mikilvægt, mikill hluti þeirra fer í samræður um námið, tryggt er að allir skilji hvað á að læra af þeim viðfangsefnum sem nemendur fást við í kennslustundum áður en nemendur fara að vinna, kennari gefur einstaklingum reglulega endurgjöf á vinnu sína, staða hópsins er tekin í kennslustundum og í lok tíma er rifjað upp hvað nemendur lærðu í tímanum og jafnvel tekin staðan á því hverjir telja sig hafa náð því sem unnið var með og hverjir ekki. Mistök eru viðurkennd sem hluti af lærdómsferli og þeim er fagnað sem lærdómstækifærum. Ef nemendur kunna ekki eitthvað ennþá þýðir það að þeir þurfa að æfa sig meira eða fara nýjar leiðir til að öðlast leiknina/færnina/hæfnina. Nemendur eru ekki látnir vinna með það sem þeir kunna nú þegar, ef þeir eru fljótir að klára er það merki um að þeir þurfi viðfangsefni sem reyna meira á þá.

Grundvallaratriði er að kennarar hafi þá trú að allir nemendur geti lært, ef ein aðferð hentar nemendum ekki að þá þurfi að leita annarra leiða. Þar sem ríkir námsmenning leiðsagnarnáms spyr kennari sig aldrei að því hvort ákveðinn nemandi geti lært þetta eða hitt. Kennari spyr sig að því hvað hann þurfi að gera svo þessi eða hinn nemandi nái tiltekinni hæfni.

Skipulag kennslustunda, endurgjöf og samræður um nám eru lykilþættir þegar kemur að því að skapa námsmenningu leiðsagnarnáms. Það skiptir einnig sköpum að litið sé á mistök sem lærdómstækifæri, að kennarar hafi miklar væntingar til allra nemenda, nemendur finni fyrir þeim væntingum og hugarfar vaxtar sé ríkjandi í kennslustofunni.

 

Hæfnimiðað nám

Í gildandi aðalnámskrá grunnskóla eru sett fram hæfniviðmið sem nemendur hafa þrjú til fjögur ár til að að vinna að. Unnið er með sömu hæfniviðmið í 1.- 4. bekk og þau sömu í 5.- 7. bekk.

Hæfniviðmiðin eru víð og gefa kennurum töluvert svigrúm til að skipuleggja nám og kennslu í hverjum árgangi. Í aðalnámskrá á bls. 48 stendur að „kennsluaðferðir og vinnubrögð í skólanum eigi að þjóna þeim hæfniviðmiðum sem stefnt er að“. Þar er einnig sagt að kennslan þurfi að stuðla að því að hjálpa nemendum að tileinka sér þekkingu, leikni og jákvætt viðhorf og öðlast þannig þá hæfni sem stefnt er að í menntun.

Fókusinn fer frá mikilvægi þess að ljúka tilteknu námsefni yfir á það að stuðla að því að nemendur nái tiltekinni hæfni.

Í aðalnámskrá grunnskóla 2011 á bls. 51 segir: „Námsgreinar eru mikilvægur hluti skólastarfs en ekki markmið í sjálfu sér. Það er ekki hlutverk skóla að kenna námsgreinar heldur að mennta nemendur og koma hverjum og einum til nokkurs þroska.“

Þegar nám er hæfnimiðað er mikilvægt að nám og kennsla stuðli að því að svo megi verða og þau viðfangsefni sem nemendur fást við í skólanum stuðli að því að þeir menntist og komist til nokkurs þroska á sinni skólagöngu.

Í aðalnámskrá grunnskóla segir jafnframt á bls. 86; „Á grundvelli hæfniviðmiða velja kennarar og nemendur kennsluaðferðir, námsefni og matsaðferðir og skal gera grein fyrir þeim í skólanámskrá í viðkomandi skóla“.

Í hæfnimiðuðu námi er unnið að því að nemendur tileinki sér þá hæfni sem stefnt er að. Til að svo megi verða þurfa þau viðfangsefni sem nemendur fást við að stuðla að því. Með því að skoða hæfniviðmið aðalnámskrár gaumgæfilega má sjá hvaða viðfangsefni nemendur þurfa að fást við til að öðlast þá hæfni sem hæfniviðmiðið lýsir.

Þegar kennsla er skipulögð er mikilvægt að hún sé tengd hæfniviðmiðum, námsmarkmið séu skýr og viðmið um árangur einnig. Nemendur þurfa að fá endurgjöf á vinnu sína sem hjálpar þeim að ná því sem vantar upp á svo þeir nái þeirri hæfni sem að er stefnt.

Það fyrsta sem er ákveðið er hvaða hæfniviðmiðum nemendur eiga að stefna að á tilteknu tímabili og síðan er skoðað hvaða viðfangsefni nemendur þurfa að fást við, hver námsmarkmiðin með vinnunni eru og síðan hugað að þeim leiðum sem farnar verða og hvar og hvernig er metið hvort nemendur hafa náð hæfninni sem stefnt var að.

Þegar nemendur stefna að tiltekinni hæfni þurfa þeir að fá tækifæri til að sýna fram á hæfni sína á fjölbreyttan hátt. Nemendur geta tekið þátt í því að ákveða hvernig þeir vilja sýna fram á hæfni sína og haft þannig enn virkari áhrif á eigið nám. Einnig er gert ráð fyrir því að við lok 4. bekkjar geti nemendur tekið  þátt í því að setja viðmið um árangur með verkefnum.

 

Matskvarðar, birting og utanumhald námsmats með breyttu sniði

Haustið 2021 verður öll birting og utanumhald námsmats færð inn í Mentor sem er kerfi sem gerir skólum kleift að halda utan um nám og kennslu og birta foreldrum. Þar geta foreldrar fylgst með námsframvindu barna sinn á svokölluðum hæfnikortum og fengið upplýsingar í gegnum vef eða smáforrit í síma um leið og nýtt námsmat hefur verið skráð.

Kennarar gera námsáætlanir þar sem hæfniviðmið aðalnámskrá koma skýrt fram ásamt því hvernig gera á nemendum kleift að ná þeirri hæfni og hvar og hvernig það verður metið. 

Kennarar búa til “námslotur” í Mentor sem ná yfir 6 - 10 vikna tímabil. Við hverja námslotu tengja þeir þau hæfniviðmið sem unnið verður með og metin eru í lok lotunnar. Námslotur tengjast þeim námssviðum eða viðfangsefnum sem unnið er með hverju sinni.

Kennarar ákveða hvaða hæfni þeir ætla að meta inn á hæfnikort hverju sinni, þar sem ekki er um lokamat að ræða getur hæfni náðst í einu verkefni en svo ekki náðst í öðru verkefni, t.d. vegna aukinna krafna, annarra áherslna eða vegna þess að nemandinn lagði sig minna fram.

Dregið verður úr formlegu lokamati og það aðeins unnið við lok 4. bekkjar og við lok 7. bekkjar í ákveðnum námsgreinum. Þá verður notaður sambærilegur matskvarði og við lokamat í 10. bekk skv. aðalnámskrá þ.e. bókstafnirnir A-D (sjá hér framar) og nemendur fá formlegt mat afhent. 

Í öðrum árgöngum notum við svokallaðan framvindukvarða sem gefur vísbendingar um hvort nemandi sé á góðu róli í átt að því sem stefnt er að. Framvindukvarðinn er sem hér segir:

  • Framúrskarandi
  • Hæfni náð
  • Á góðri leið
  • Þarfnast þjálfunar
  • Hæfni ekki náð

Þegar kennarar meta nemendur og skrá matið inn á hæfnikort þeirra í Mentor verður hæfnikort nemenda sýnilegt þeim og forráðamönnum þeirra. Litakóði er notaður til að matið verði sem sjónrænast. Grænt táknar settu marki náð, fjólublátt að nemandinn sé á góðri leið, gult að nemandinn þarfnist þjálfunar og rautt að markmiðum hafi ekki verið náð. Ef einhver hæfniviðmið hjá nemanda eru blá þýðir það að hann hefur sýnt framúrskarandi hæfni, hann hefur sprengt skalann og gert betur en ætlast var til í verkefni/verkefnunum sem lagt/lögð eru til grundvallar matinu.

Lykilatriði við skráningu mats inn í Mentor er að ljóst sé hvaða verkefni liggja að baki matinu og hvað réð því að viðkomandi nemandi fékk t.d. þarfnast þjálfunar” í þetta sinn og annar “á góðri leið” eða “hæfni náð”. Þegar viðmið um árangur hafa verið skilgreind fyrirfram í verkefnum sem metin eru auðveldar það allt mat og rökstuðning fyrir því.

Þessi kvarði getur útskýrt þetta að einhverju leyti en svo eru það viðmið um árangur hvers verkefnis sem lýsa enn skýrar hvað vantar uppá eða náðist.

Hæfni ekki náð

Þarfnast

þjálfunar

Á góðri leið

Hæfni náð

Framúrskarandi

Ef fátt eða

ekkert af því

sem beðið er um í viðmiðum um árangur í verkefninu er það metið svo að hæfni sé ekki náð.

Ef einungis nokkrir þættir sem fram koma í viðmiðum

um árangur koma fram í verkefninu telst verkefnið ekki fullnægjandi og hæfni telst því ekki náð og nemandi þarfnist frekari

þjálfunar.

Ef mjög lítið vantar upp á að nemandi hafi uppfyllt öll viðmið um árangur er hann á góðri leið og þarf aðeins að betrumbæta einstaka atriði til að teljast hafa náð þeirri hæfni sem liggur til grundvallar verkefninu.

Ef allt sem fram kemur í viðmiðum um árangur kemur fram er verkefni fullnægjandi og hæfni þar með náð.

Ef allt sem fram kemur í viðmiðum um árangur kemur fram í verkefninu er hæfni náð og ef nemandi sýnir að auki fram á að hann lagði meira í verkefnið en ætlast var til er verkefnið framúrskarandi. Getur snúist um að fara meira á dýptina, frumleika og sköpun í útfærslu og þegar sýnt er fram á óvænt sjónarhorn í verkefninu.

 

Matsaðferðir

Sú matsaðferð sem lögð verður áhersla á í Flataskóla frá haustinu 2021 kallast leiðsagnarmat (formative assessment eða assessment for learning). Eins og fram kom hér að framan felur hún í sér markvissa leiðsögn til nemenda í námsferlinu um það hvernig þeir geta náð þeim markmiðum sem stefnt er að. Nemendur fá markvissa endurgjöf frá kennara og tækifæri til að bæta sig eftir þá endurgjöf. Endurgjöfin sem þeir fá tekur alltaf mið af þeim viðmiðum um árangur sem sett hafa verið fyrirfram og nemendum eru ljós í upphafi vinnunnar.

Við ætlum ekki að leggja af allar aðrar matsaðferðir en þær matsaðferðir sem við notum þurfa að vera í anda námsmenningar leiðsagnarnáms.

Símat hefur verið notað í Flataskóla, það vísar til tíðni mats þ.e. hversu oft er metið. Það er hægt að rökstyðja það að leiðsagnarmat sé símat, því þegar matsaðferðin er notuð fer matið fram í hverri kennslustund. Hins vegar er til símat sem ekki fellur undir leiðsagnarmat, það er reglulegt mat sem kennari nýtir ekki til að endurskipuleggja sína kennslu í takt við niðurstöðurnar og nýtist því nemendum ekki til að bæta árangur sinn. Það er grundvallaratriði í leiðsagnarmati að matsniðurstöður séu nýttar markvisst til að styðja nemandann í því að bæta árangur sinn.

Jafningjamat er hugtak sem er notað yfir það þegar nemendur meta vinnu hvers annars. Þegar markmið verkefnisins sem metið er eru skýr og viðmið um árangur einnig geta nemendur auðveldlega gefið samnemendum sínum endurgjöf á þeirra verkefni. Þar sem grundvallaratriði í námsmenningu leiðsagnarmats er að líta á mistök sem lærdómstækifæri er þetta góð leið til að þjálfa nemendur til að horfa á vinnu sína með þeim hætti. Það er ekki gert lítið úr þeim sem gerir mistök, hann fær tækifæri til að rökstyðja val sitt á leið og/eða niðurstöðu og bera saman hvort það samræmist viðmiðum um árangur sem ljós voru fyrirfram. Markvisst jafningjamat sem nýtist nemendum til að bæta árangur sinn getur fallið undir leiðsagnarmat og er sjálfsagður þáttur námsmenningar leiðsagnarnáms.

Lokamat er mat sem  metur stöðu nemenda í lok  ákveðins tímabils eftir að þeir hafa unnið markvisst að því að ná ákveðinni hæfni.

Að leggja skriflegt próf fyrir nemendur, fara yfir það og skrá síðan niðurstöðuna t.d. með 7/10, 70% eða 7 er sú aðferð sem foreldrar þekkja best sem birtingamynd lokamats. Ef unnið er með þessar niðurstöður og þær nýttar til að aðlaga kennslu að því sem nemendur þurfa að læra betur getur þetta verið partur af leiðsagnarmati. Ef þessi niðurstaða liggur fyrir og haldið er áfram yfir í næsta viðfangsefni lýsir matið aðeins þeirri stöðu sem er í lok ákveðins tímabils og er því fremur lokamat.  

Áfram verður notast við matsmöppur sem matsgögnum er safnað í og sendar eru reglulega heim með nemendum. Markmiðið með því er að gefa foreldrum sem besta mynd af vinnu nemandans í skólanum. 

 

English
Hafðu samband