Góð og holl næring er undirstaða þess að nemendur nái árangri í námi og að þeim líði vel.
Mikilvægt er að allir nemendur borði staðgóðan morgunverð áður en þeir mæta í skólann.
Garðabær hefur gert samning við Skólamat ehf. um framleiðslu og framreiðslu á mat í Flataskóla. Nálgast má upplýsingar á vefnum hjá Skólamat um matseðla og áskriftarleiðir. Skólamáltíðar eru gjaldfrjálsar en nauðsynlegt er að skrá nemendur í áskrift www.skolamatur.is. Nemendur fá auðkennisnúmer sem þeir slá inn. Nemendur stendur einnig til boða að vera í s.k. ávaxtaáskrift og greiða foreldrar 170 kr. fyrir. Komið er með niðurskorna ávexti og grænmeti í bökkum í kennslustofur í nestistíma að morgni og fær hver nemandi sem samsvara einum ávexti.
Nestistími
Skólinn leggur mikla áherslu á að nesti barnanna sé hollt og gott. Nemendur hafa með sér létta hressingu að heiman í nestistímann að morgni, gróft brauð, ávexti eða grænmeti. Orkustangir, sætabrauð, kex o.þ.h. er ekki leyfilegt. Foreldrar yngri barna athugi sérstaklega að skera niður ávexti og grænmeti og forðast ílát sem flókið er að opna. Foreldrar eru beðnir um að taka tillit til umhverfisstefnu skólans og stilla í hóf notkun einnota umbúða og senda börnin með vatnsbrúsa
Í nestistímanum er leitast við að skapa notalegt og rólegt andrúmsloft.
Nokkrum sinnum á skólaárinu eru gerðar undantekningar í nestismálum nemenda. Það tilkynnir kennari nemendum og foreldrum sérstaklega. Það getur verið svokallað sparinesti sem nemendur fá að koma með í sérstökum vettvangsferðum. Þá er átt við að nemendur megi koma með t.d. snúð, kleinu eða kex og drykki. Fyrir jólin á svokölluðum stofujólum mega nemendur koma með gos og smákökur eða kex. Sama á við á bekkjarskemmtunum með foreldrum.
Drekkum vatn
Í öllum stofum er hægt að fá vatn að drekka hvenær sem er dagsins. Börnin eru hvött til þess að koma með glas eða brúsa að heiman sem þau geyma í skólanum. Ekki er heimilt að koma með gosdrykki eða orkudrykki í skólann.
Hádegisverður
Nemendum stendur til boða að vera í reglulegri áskrift hjá Skólamat að heitum málsverði. Matseðla ásamt nánari upplýsingum er að finna á vefsíðunni hjá Skólamat.
Þeir sem ekki eru í mataráskrift koma með nesti að heiman og borða það í matsalnum. Hægt er að hita mat í örbylgjuofnum og brauð í samlokugrilli.
Rík áhersla er lögð á góða umgengni og prúðmennsku í matsal.