Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Flataskóli tekur þátt í verkefninu ,,Gegn einelti í Garðabæ” sem er samstarfsverkefni grunnskóla bæjarins.

Starfsmenn Flataskóla eru sammála um að einelti eða önnur ofbeldisframkoma sé aldrei liðin. Hlutverk starfsfólks skólans í samstarfi við foreldra er að efla með nemendum samkennd og leiðbeina nemendum um tillitsama hegðun gagnvart öllum.  

Einelti er ofbeldi sem getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér bæði fyrir þolanda og geranda. Andlegt ofbeldi, eða áreiti, hefur oft verri afleiðingar í för með sér en líkamlegt ofbeldi. Einelti hefur iðulega alvarleg áhrif á nám, líðan og félagsþroska einstaklinga. Framkoma og hegðun nemenda  sem láta samnemendum sínum líða illa líkamlega eða andlega samræmist ekki gildum Flataskóla menntun, árangur og ánægja.

Það er sameiginlegt verkefni starfsfólks og foreldra  að vinna saman að því að  skapa vinsamlegt skólasamfélag þar sem allir fá að vaxa. Einelti er ekki málefni einstaklinga, það þarf  heilt samfélag til að fyrirbyggja eineltismenningu.

Viðbragðsáætlun

Ef grunur vaknar um einelti þarf að virkja viðbragðsáætlun Flataskóla vegna eineltis hratt og vel. Ávallt skal bregðast við tilkynningu um einelti sem fyrst og ekki láta líða meira en einn dag frá tilkynningu þar til viðbragðsáætlun Flataskóla vegna eineltismála er virkjuð.

Viðbragðsáætluninni er skipt í þrjú stig, könnunarstig, aðgerðastig I og aðgerðastig II.

Það fer eftir alvarleika mála hversu mörg stiganna þarf að fara í gegnum.

Þegar tilkynning um mögulegt einelti berst fyllir sá sem tekur við tilkynningunni út þar til gert eyðublað  og kemur afriti til eineltisteymis. Umsjónarkennari kannar málið  og upplýsir alla starfsmenn um að könnun sé farin af stað.  Markmiðið vinnunnar er að vinna málin hratt og örugglega til að brjóta strax upp eineltismunstur eða vísi að þeim. Viðkomandi foreldrar eru einnig upplýstir um málið.

 Könnunarstig

Könnun felur í sér að tekin eru könnunarsamtöl við nemendur sem eru dagsdaglega nálægt tilteknum nemendum.  Einnig er rætt við meintan þolanda og meintan geranda og starfsfólk skólans sem gæti verið vitni. Markmiðið er að kortleggja stöðuna.

Tilviljanakennd stríðni, átök og ágreiningur milli jafningja telst ekki til eineltis og er málinu þá lokað.
Í öllu ferlinu eru foreldrar vel upplýstir um stöðu mála.

Aðgerðastig I

Eineltisteymið vinnur úr könnunarferlinu og ákvarðar framhald vinnunnar út frá niðurstöðum könnunarferlisins. Ef niðurstöður benda til eineltis tekur við ákveðið ferli sem stendur yfir að hámarki í fjórar vikur. 

Eineltisteymi skipuleggur einstaklingsbundin viðtöl við þolanda, geranda og forráðamenn, tryggir upplýsingaflæði til allra sem máli skiptir, skipuleggur stuðning við þolanda og geranda ásamt að sjá til þess að í þeim hópi sem um ræðir eigi sér stað markviss vinna og fræðsla fyrir nemendur.

Í öllu ferlinu eru foreldrar vel upplýstir um stöðu mála og kallaðir eru til þeir sérfræðingar sem þörf er á.

Málinu er lokað með formlegum hætti.

Aðgerðastig II

Ef fyrra aðgerðarstig leysir ekki vandann er  haldið áfram að vinna með gerendum og þolendum og leitað utanaðkomandi  aðstoðar ef vinnan skilar ekki árangri.  Ýmis úrræði eru nýtt og fer það eftir eðli máls hvert er leitað.

Náist ekki sátt innan sveitarfélagsins má vísa málinu tilfagráðs sem starfar á ábyrgð Mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Í skólanum er starfrækt eineltisteymi sem situr einnig í verkefnastjórn „Gegn einelti í Garðabæ“. Í teyminu sitja:

Námsráðgjafi: Katrín Anna Eyvindardóttir 
Deildarstjóri eldri nemenda:Edda Gíslrún Kjartansdóttir
Deildarstjóri yngri nemenda: Helga Kristjánsdóttir

Ef grunur vaknar um einelti gagnvart þínu barni eða öðrum er mikilvægt að vitneskja um það berist til skólans sem fyrst. Einelti ber að tilkynna með formlegum hætti og með því að fylla út þar til gert eyðublað. Farið er eftir ákveðnu vinnuferli í meðferð eineltismála.

Eineltisáætlun Flataskóla

Eineltisáætlun grunnskóla Garðabæjar 

English
Hafðu samband