Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Samvinna heimilis og skóla í lestrarnámi barna

Stuðningur foreldra við lestrarnám barna sinna alla skólagönguna getur haft mikil áhrif á hversu farsælt barnið verður. Reglulegur heimalestur, rík málræn samskipti og lestrarhvetjandi umhverfi almennt vega þar þyngst. Mikilvægt hlutverk þeirra í lestrarþjálfuninni er heimalestur allt skólaárið. Barnið þarf að lesa upphátt daglega í a.m.k. 15 mínútur. Stundum getur verið nauðsynlegt að lesa hverja blaðsíðu tvisvar eða þrisvar og gefur kennari þá fyrirmæli um slíkar áherslu. Hluti af lestrarnáminu er að skrá lestur barnsins á skráningarblað/bók sem barnið hefur ásamt bókinni í möppu og hefur alltaf í skólatöskunni. Umsjónarkennari skoðar kvittanahefti reglulega, heldur bókhald yfir lesturinn og afhendir barninu nýjar bækur þegar þess þarf. Skráð er í Mentor.is ef heimalestri er ekki sinnt.
 
Mikilvægt er að setja heimalesturinn inn í rútínu heimilisins og skapa rólegt og afslappað umhverfi þegar barnið les. Nauðsynlegt er að sitja hjá barninu og fylgjast með lestrinum og leiðrétta þegar orðin eru lesin rangt og hrósa þegar rétt er lesið. 
 
Mikilvægt er að hætta ekki að lesa fyrir börnin þó að þau lesi sjálf. Hver sagði að kósíkvöld ættu að vera sjónvarpskvöld? - Prófið kósíkvöld með góðri bók – lesið upphátt, hlustið á börnin lesa eða hlustið saman á hljóðbók. Það má alveg poppa fyrir bóklestur eins og bíómyndir. Tengið lestur bóka við notalegar fjölskyldustundir, gæðastundir þar sem þið getið spjallað saman, hlegið saman og styrkt böndin.
 
Lestur er fjölskylduverkefni sem bæði mamma og pabbi þurfa að sinna – eða báðar mömmurnar og báðir pabbarnir eða stjúpmömmurnar og stjúppabbarnir, ömmurnar og afarnir, frænkurnar og frændurnir ... lestur ætti að vera fastur liður hjá öllum fjölskyldum; fjölmennum, fámennum, fjörugum, þögulum, heimkærum og útilífsóðum. Ekkert barn ætti að fara á mis við fjölskyldulestur – fram eftir öllum aldri.

Til baka

 
English
Hafðu samband