Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Sjálfbærni

Í sjálfbærnimenntun felst viðleitni til að skapa samábyrgt samfélag þar sem sérhver einstaklingur er þroskaður sem virkur borgari, meðvitaður um gildi, viðhorf og tilfinningar sínar. Í sjálfbærnimenntun felst einnig að börn og ungmenni takist á við margvísleg álitamál og ágreiningsefni í námi sínu. Sjálfbærni snýst um umhverfið, ábyrgð, virðingu, lýðræðisleg vinnubrögð og réttlæti í nútíma þjóðfélagi og gagnvart komandi kynslóðum.  

Í Flataskóla eru nemendur hvattir til gagnrýninnar umfjöllunar um viðfangsefni. Þeir fá ýmis tækifæri til að vega og meta það námsefni sem verið er að fást við hverju sinni og draga ályktanir út frá því. Miðað er að því að gera nemendum kleift að takast á við viðfangsefni er lúta að samspili umhverfis og félagslegra þátta í þróun samfélags. Lögð er áhersla á að efla með nemendum siðferðisleg gildi, virðingu og gagnrýna hugsun um hnattræn áhrif okkar og að þeir átti sig á að hegðun á heimaslóð skipti ekki síður máli en þátttaka á heimsvísu. Skólinn er þátttakandi í verkefninu skólar á grænni grein og hefur flaggað grænfánanum í 10 ár. Nemendur skólans fá fræðslu um umhverfismál og taka virkan þátt í flokkun á sorpi og endurvinnslu auk þess sem þeir sjá um að halda skólalóðinni hreinni.

Til baka  

English
Hafðu samband