Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Mystery Skype hjá 7. bekk

04.12.2015
Mystery Skype hjá 7. bekk

Það var fjör í skólastofunni hjá 7. HÞ í morgun en nemendur fengu það verkefni að nettengjast við skóla úti í heimi og reyna að finna út hver og hvar hann var á jörðinni. Þetta er leikur sem kallaður er Mystery Skype eða ratleikur um heiminn þar sem þátttakendur vita ekki fyrirfram við hverja þeir eru að tala og þurfa með já og nei spurningum að afla sér upplýsinga til að finna það út. Nemendur voru búnir að undirbúa spurningar sem þeir notuðu til að spyrja hina og auðvitað var allt á ensku. Við vorum búin að fela allt í umhverfi okkar sem gat bent á okkar staðsetningu og allir gættu þess að tala ekki íslensku. Við vorum í sambandi við sænskan skóla á eyjunni Tjörn sem okkur fannst svolítið fyndið af því að það orð er til á íslensku. Við vorum búin að finna að þetta væri eyja fyrir utan Götaborg með meira en 1000 íbúa þegar hinir fundu hver og hvar við vorum. Þau þurftu að skrifa orðið Garðabær því þau treystu sér ekki til að bera það fram. Það fannst nemendum fyndið. Í lokin var spjallað smávegis, þeir spurðu um ýmislegt sem tengdist Íslandi og við sýndum þeim út um gluggann á allan snjóinn sem er núna hjá okkur. Við kenndum þeim að segja Eyjafjallajökull sem gekk svona og svona og að síðustu óskuðu þau eftir að fá að gerast pennavinir okkar og skiptast á Instagram nöfnum. Þetta var frumraun okkar í Mystery Skype og var ekki annað að sjá en að nemendur hefðu mjög gaman og ekki síður gagn af þessu verkefni. Þarna lærðu þeir tungumál, samskipti, landafræði, sögu og fleira og fleira sem kom upp á og þeir þurftu að taka á eða spyrja um. Myndir eru komnar inn á myndasafn 7. bekkja.

   
Til baka
English
Hafðu samband