Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Innra starf

Fjölbreyttir kennsluhættir

Áhersla er lögð á fjölbreytni í skólastarfi, virkni nemenda, sköpun, rannsóknarvinnu, tjáningu þeirra og gagnrýna hugsun. Einnig er leitast við að samþætta námsgreinar og að efla tengsl skóla við daglegt líf og umhverfi. 
Í Flataskóla eru unnin mörg samskiptaverkefni sem tengjast við skóla margra Evrópulanda. Flest þeirra eru unnin sem rafræn verkefni þar sem tölvutæknin er notuð til samskiptanna. Mörg þeirra eru styrkt af Evrópusambandinu og hefur starfsfólk skólans þannig fengið mörg tækifæri til að takast á hendur ferðir til að heimsækja skóla þátttökulandanna og þannig kynnst ennfrekar menningu og starfsháttum samstarfsskólanna. Hefur þetta aukið enn á góðan og skemmtilegan anda sem ríkir meðal starfsfólks og nemenda skólans. Ennfremur hafa samskiptaverkefnin aukið víðsýni og breytt starfsháttum að sumu leyti í skólanum.

Fjölbreytt námsmat

Áhersla er lögð á fjölbreytt námsmat samhliða aukinni ábyrgð nemenda á eigin vinnu. Auk hefðbundins mats með skriflegum og munnlegum prófum er stuðst við sjálfsmat, jafningjamat og ferilmöppur.

Fámennir námshópar

Hver nemandi hefur umsjónarkennara. Umsjónarhópum er skipt í fámennari námshópa. Nemendum er ýmist blandað í hópa innan árgangs eða milli árganga. Samsetning hópa miðast við þarfir nemenda, hæfni þeirra og félagsleg samskipti.

Mikil samvinna

Áhersla er lögð á samvinnu nemenda innan umsjónarhóps og milli umsjónarhópa. Áhersla er einnig lögð á samvinnu starfsmanna og samstarf heimila og skóla.

Góður aðbúnaður og hvetjandi starfsumhverfi

Lögð er áhersla á að nemendur og starfsmenn hafi aðgang að öflugum tæknibúnaði og námsgögnum. Verkefnum nemenda er gert hátt undir höfði og þau höfð sýnileg. Áhersla er lögð á hlýlegt og vistlegt umhverfi og virðingu fyrir húsnæði og búnaði.

Gott upplýsingaflæði

Áhersla er lögð á að gefa reglulega út fréttabréf fyrir starfsmenn, halda úti vel uppfærðri heimasíðu Flataskóla, tryggja góð tölvupóstsamskipti innan og utan skólans og skráningu upplýsinga í upplýsinga- og menntavefinn Mentor.

Til baka

English
Hafðu samband