Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Verkferlar

Kennarafundir:  Kennarafundir eru haldnir mánaðarlega og skiptast kennarar á að annast fundarstjórn og skólaritari skrifar fundargerðir. Á kennarafundum eru teknar ákvarðanir í ýmsum mikilvægum málum sem varða skólastarfið. Fundirnir eru samstarfsvettvangur þar sem ýmsar ákvarðanir eru teknar varðandi skólahaldið.  

Stigsfundir og vinnufundir:  Stigsfundir eru haldnir einu sinni til tvisvar í mánuði. Þar funda kennarar 1.   4. bekkja og 5.   7. bekkja með deildarstjórum viðkomandi deilda og fara yfir málefni sem tengjast því skólastigi. Á móti þessum fundum eru einnig sérstakir vinnufundir kennara þar sem unnið er í vinnuhópum ýmist árgangaskipt eða faggreinaskipt að ýmsu er varðar faglegt starf og skipulag innan skólans.

Samstarfsfundir:  Einu sinni í viku hafa kennarar fastan fundartíma. Markmið þeirra funda er að skipuleggja og samræma skólastarfið. Þeir kennarar sem kenna saman í árgangi funda saman og samræma kennsluna í viðkomandi árgangi. Sérgreinakennarar funda saman og sérkennarar funda einnig. Einu sinni í mánuði funda sérkennarar með umsjónarkennurum í þeim árgöngum sem þeir kenna í.

Starfsmannafundir:  Fastir starfsmannafundir eru þrisvar til fjórum sinnum á skólaárinu. Á starfsmannafundum er fjallað um málefni sem eiga erindi við alla starfsmenn og varða starf og skipulag skólastarfsins.

Þróunarstarf:  Starfsmenn Flataskóla leggja áherslu á fagleg vinnubrögð og að veita nemendum og foreldrum öfluga þjónustu sem byggir á þekkingu og reynslu. Þess vegna er lögð rík áhersla á símenntun starfsmanna og fjölbreytta starfsþróun. 

Skólaþróun:  Ef skólastarf á að þróast í takti við samfélagið þarf það að vera í sífelldri skoðun og starfsmenn að vera tilbúnir til að feta nýjar slóðir í starfi sínu. Í Flataskóla er unnið að nokkrum þróunarverkefnum sem eru misstór og komin mislangt á veg.  Það er m.a. verkefni sem skólinn vinnur saman að í heild í tengslum við Réttindaskóla Unicef, verkefni um heilsueflanda skóla, Grænfánaverkefni, verkefni um innleiðingu leiðsagnarmats og verkefnum um starf vinaliða í frímínútum. Auk þess vinna einstakir kennarar að minni þróunarverkefnum.
Skólinn eða einstakir kennarar sækja styrki í þróunar- og endurmenntunarsjóði til að vinna að þróunarverkefnum. 

Símenntun:  Símenntun starfsfólks má skipta í tvo meginþætti, annars vegar þætti sem eru nauðsynlegir fyrir skólann og hins vegar þætti sem starfsfólk metur æskilega eða nauðsynlega fyrir sig. Skólastjóri ákvarðar almenna þörf fyrir námskeið og fræðslufundi út frá stefnu skólans, áhersluatriðum næsta vetrar og/eða þróunarvinnu á grundvelli sjálfsmats skóla. Starfsfólki ber að gera skólastjóra grein fyrir þeim þáttum í sí- og endurmenntun sem þeir hafa áhuga á að sinna til að halda sér við í starfi eða bæta við nýrri þekkingu sem nýtist í starfi. Starfsfólki er skylt að fara á námskeið sem þeim er ætlað að fara á samkvæmt símenntunaráætlun skóla, enda séu þau starfsfólki að kostnaðarlausu.
Símenntunaráætlun eða áætlun um starfsþróun fyrir skólaárið tekur mið af því að uppfylla ákvæði um 102/126/150 stundir í endur- og símenntun kennara. Áætlunin er annars vegar samansett af námskeiðum sem skólinn eða skólaskrifstofa stendur fyrir og miðast við að allir eða ákveðnir hópar kennara og starfsmanna taki þátt. Hins vegar er um að ræða endur- og símenntun sem kennarar og starfsmenn velja sjálfir. 

Allir kennarar gera eigin starfsþróunaráætlun að hausti og bera undir stjórnendur til samþykktar. Kennarar hitta stjórnendur aftur að vori og fara yfir hvernig til tókst og skila inn yfirliti yfir símenntun sína. 

Skilgreining á endur- og símenntun er eftirfarandi: 
Námskeið á vegum skólans eða skóladeildar – greitt af sveitarfélagi. 
Námskeið sem kennarar velja sjálfir og greiða úr Starfsmenntunarsjóði. 
Sjálfsnám. 
Námsefnisgerð. 
Kennsla á námskeiðum. 
Námskeið á kennslutíma teljast ekki hluti af ofangreindum stundum. 

 Til baka 
English
Hafðu samband