Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Starfsmannastefna

Starfsmenn eru mikilvæg auðlind skólans. Því er stefnt að því að ráða, halda í og efla hæfa og trausta starfsmenn sem valdir eru til starfa vegna hæfileika sinna sem grundvallast af reynslu, menntun og persónueinkennum. 

Leitast er við að ráða starfsmenn sem:

Eru sveigjanlegir og vinna vel í hóp. 
Eru traustir og áreiðanlegir.
Hafa þjónustulund og efla heildina.
Sýna frumkvæði og eru útsjónarsamir.
Skapa og miðla þekkingu. 
Hafa áhuga á að kynna og tileinka sér nýjungar í starfi.

Við val á starfsmönnum eru starfslýsingar hafðar til hliðsjónar. Með skipulegri nýliðamóttöku er nýjum starfsmönnum gert kleift að ná fljótt og vel tökum á störfum sínum. Lögð er áhersla á að kynna skólann og skólastarfið vel fyrir starfsmönnum og gera þeim grein fyrir réttindum sínum, skyldum og ábyrgð.

Stefnt er að því að allir starfsmenn hafi starfslýsingu sem segir til um hlutverk viðkomandi. Þar kemur fram hver eru helstu verkefni, ábyrgð og skyldur sem tilheyra viðkomandi starfi. Starfslýsingar eru endurskoðaðar eftir þörfum.

Fræðsla og starfsþróun: Stefna Flataskóla er að skapa gott og krefjandi starfsumhverfi sem laðar að sér hæft og metnaðarfullt starfsfólk sem hefur áhuga á að þróast í starfi. Því er lögð áhersla á að efla hæfni starfsfólks með því að bjóða upp á fjölbreytta fræðslu og tækifæri til starfsþróunar. 
Stjórnendur og starfsfólk bera sameiginlega ábyrgð á viðhaldi menntunar og hæfni starfsmanna. Starfsmannasamtöl eru vettvangur til að ræða starfsþróun og gera áætlun um frekari þjálfun og menntun. Það er hlutverk stjórnenda að veita hvatningu og uppbyggilega endurgjöf sem stuðlar að því að starfsmenn auki þekkingu sína og hæfni. Þannig eru starfsmenn betur í stakk búnir til að nýta eiginleika sína til að þroskast í starfi. 

Upplýsingagjöf:  Til að tryggja að starfsmenn vinni samkvæmt stefnu skólans, markmiðum og starfsáætlun er mikilvægt að upplýsingagjöf sé góð. Leitast er við að upplýsa starfsmenn um þessa þætti sem og um það sem er á döfinni í hvert sinn. Slíkt er gert með reglulegum starfsmannfundum og annars konar upplýsingagjöf eins og tölvupósti, vikulegu fréttabréfi til starfsmanna og með því að hengja upp upplýsingar í starfsmannarými. Starfsmannasamtöl fara fram í febrúar ár hvert. 

Ástundun:  Starfsmönnum er ætlað að sinna skyldum sínum á umsömdum vinnutíma og mæta stundvíslega til starfa. Það er á ábyrgð stjórnenda að þessi skilyrði séu uppfyllt og að grípa til aðgerða sé þess þörf. Það er mikilvægt að starfsmenn virði samstarfsmenn sína og starfsreglur skólans. Ástundun og heiðarleiki í starfi er mikilvægur þáttur sem og metnaður og ábyrgð.  

Trúnaður:  Allir starfsmenn Flataskóla eru bundnir trúnaði. Öll umræða og upplýsingar um nemendur og foreldra þeirra skulu einungis vera innan veggja skólans. Lögð er áhersla á að talað sé af virðingu um nemendur og fjölskyldur þeirra. Foreldrar þurfa að geta treyst því að börn þeirra séu örugg í skólanum og að lagður sé metnaður í þá vinnu sem þar fer fram. Málefni einstakra nemenda eða fjölskyldu þeirra skulu ekki rædd almennt á kaffistofu starfsmanna. Samkvæmt 17. gr. laga um barnavernd nr. 80 frá 2002 er starfsfólki skylt að tilkynna til barnaverndaryfirvalda ef það verður vart við að barn búi við óviðunandi uppeldisskilyrði, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða að barn stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu. Tilkynningarskylda gengur framar ákvæðum laga.  

Leyfi:  Ef starfsmaður óskar eftir leyfi skal hann ræða það með góðum fyrirvara við skólastjórnendur og skila beiðni þar um á sérstöku eyðublaði. Sama gildir um ósk starfsmanns um að sækja námskeið eða fræðslu á vinnutíma. 
Varðandi afgreiðslu leyfisbeiðna er um tvennt að ræða. Starfsmaður fær launalaust leyfi. Starfsmaður vinnur sér fyrirfram inn leyfi með aukavinnu og/eða vinnur eftir á af sér leyfi eða hluta leyfis. Í tilviki kennara getur hann mögulega kennt í forföllum, sinnt félagsstörfum eða ákveðnum verkefnum og launin ganga upp í leyfið. Í tilviki almennra starfsmanna getur verið um að ræða hliðrun á vinnutíma, t.d. vinnu utan skólaársins, yfirvinnu eða annað sem aðstæður bjóða upp á. Stjórnendur meta hvort starfsmenn hafi tækifæri til að vinna af sér frí. Möguleiki er á tveimur skiptileyfisdögum á hvorri önn.
Lögð er áhersla á að sveigjanleiki í vinnutíma sé gagnkvæmur þannig að starfsmaður telji jafn sjálfsagt að mæta sanngjörnum óskum stjórnenda um tilhliðrun þegar þannig stendur á.  

Tilkynningar og skráningar:  Starfsmenn skulu tilkynna símleiðis fjarveru vegna eigin veikinda eða veikinda barna til  ritara skólans. Skal það gert strax að morgni þegar skrifstofa opnar kl. 7:45 og ekki seinna en kl. 8:00.
Kennari skal gera forfallakennara eins auðvelt og hægt er að kynna sér kennslu sem inna þarf af hendi þann dag (eða þá daga) sem hann er fjarverandi vegna veikinda. Vikuáætlanir eiga að vera aðgengilegar í kennslustofum og einnig má senda ritara eða forfallakennara tölvupóst sé um frávik frá áætlunum að ræða. 
Þurfi starfsmaður að fá leyfi í hálfa eða heila daga vegna læknisferða eru þær fjarvistir skráðar eins og um veikindi væri að ræða. 
Skila þarf inn læknisvottorði ef um er að ræða samfelld veikindi í lengri tíma en viku.  Ef um er að ræða samfelld veikindi í lengri tíma en einn mánuð skal starfsmaður skila inn starfshæfnis¬vottorði áður en hann mætir til starfa á nýjan leik.  

Vinnuumhverfi – vinnuvernd:  Stefnt skal að því að vinnuumhverfi sé eins þægilegt og aðlaðandi og aðstæður leyfa. Stjórnendum ber að stuðla að heilbrigðu vinnuumhverfi og áhættumat skal framkvæmt reglulega. Vinnuumhverfi starfsmanna skal vera laust við hættuleg efni og aðra vá eins og kostur er. Starfsmönnum ber að fylgja þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra um öryggi og gætni í starfi. Flataskóli er reyklaus vinnustaður og notkun áfengis eða annarra vímuefna er óheimil í skólahúsnæði og á lóð skólans. 

Vinnuslys:  Starfsmaður sem verður fyrir slysi á vinnutíma eða á leið í og úr skóla, skal fara á slysadeild til skoðunar og umönnunar. Þar skal hann óska eftir áverkavottorði. Vottorðið, eða afrit af því, lætur hann hjúkrunarfræðing eða öryggisvörð hafa. Öll slys skal tilkynna eins fljótt og auðið er til hjúkrunar¬fræðings og/eða öryggisvarðar sem gera skriflega skýrslu um óhappið og tilkynna til skólastjóra.

Siðferði:  Starfsfólk virðir og vinnur samkvæmt siðareglum hverrar starfsstéttar. Þetta eru siðareglur kennara, siðareglur náms- og starfsráðgjafa og siðareglur þroskaþjálfa.

Móttaka nýrra starfsmanna:  Markmiðið með áætlun um móttöku nýrra starfsmanna er að kynna fyrir þeim mikilvæg atriði í skólastarfinu og auðvelda þeim að aðlagast nýjum vinnustað. Skólastjórnendur funda með nýjum starfsmönnum og kynna þeim áhersluatriði skólans og fara með þá í kynnisferð um skólahúsnæðið. Nýútskrifaðir kennarar fá leiðsagnarkennara úr hópi reyndari kennara skólans sem þeir funda með vikulega í eina klukkustund allt skólaárið. Aðrir starfsmenn eru oftast undir handleiðslu næsta yfirmanns, t.d. deildarstjóra, húsvarðar eða samstarfsmanns í sama starfi, og geta leitað til þeirra.

Störf stjórnenda

Störf kennara

Önnur sérfræðistörf

Önnur störf

Verkferlar

 Til baka 

English
Hafðu samband