Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Próf og skimanir í Flataskóla

HLJÓM-2 er greiningartæki, aldursbundin skimun sem er lögð fyrir til að meta hljóðkerfis- og málmeðvitund barna í elsta árgangi leikskólans í því skyni að greina þau börn sem eru í áhættu fyrir síðari lestrarerfiðleika. Skimunin er lögð fyrir að hausti og er endurprófað að vori hjá þeim sem eru undir viðmiðum. Prófþættir eru rím, samstöfur (atkvæði), samsett orð, hljóðgreining, orðhlutaeyðing og margræð orð. Niðurstöður sýna mjög slaka færni, slaka færni, meðal færni eða góða færni miðað við jafnaldra. Niðurstöður berast grunnskóla.
  

Lesferill

Lesferill er heiti á nýju matstæki sem unnið er af læsisteymi Menntamálastofnunar í samstarfi við aðra sérfræðinga stofnunarinnar. Lesferli er ætlað að meta grunnþætti læsis, s.s. lesfimi, lesskilning, ritun, orðaforða og málskilning. Matstækið lesferill er staðlað og metur lestrarfærni nemenda miðað við jafnaldra.
 
Lesskimun fyrir fyrsta bekk (áður Ltl) fer fram í október, tvö skipti í 40 mínútur í senn. 

Eftirfarandi þættir eru prófaðir:

Málskilningur og orðaforði.
Bókstafa og hljóðaþekking.
Hljóðkerfis- og hljóðavitund.
 
Lesskimunarprófið gerir bekkjarkennurum kleift að kanna hversu vel nemendur eru undirbúnir til þess að takast á við lestrarnámið. Brugðist er við með ólíkum hætti eftir því hvernig styrk- og veikleikar nemenda birtast í hverjum þessara færniþátta. Bekkjarkennarar í 1. bekk og sérkennari leggja skimunina fyrir nemendur. 
 
Lesfimipróf lesferils eru lögð fyrir nemendur af bekkjarkennara í september, janúar og maí. Niðurstöður eru skráðar í gagnagrunn og sýna stöðu nemenda miðað við jafnaldra. Lesfimiprófin eru einstaklingspróf þar sem nemandi les í tvær mínútur í senn. Lesfimiprófin meta leshraða/sjálfvirkni, lestrarnákvæmni og hrynræna þætti. Niðurstaða lesfimiprófa birtast í orðum á mínútu. Lesfimiviðmið fylgja hverjum árgangi. (Sjá lesfimiviðmið fyrir lesferil).
 
Markmið með lesfimiprófum er að fylgjast með framförum og þróun lestrarfærni hjá nemendum. Í þeim tilfellum þar sem nemendur ná ekki að sýna jafnar framfarir og fylgja árangi er reynt að grípa inn í sem fyrst í formi stuðnings/sérkennslu. Þannig má koma í veg fyrir að nemendur dragist aftur úr jafnöldrum. Mikilvægt er að fylgjast með inngripi og fylgja eftir námsáætlun fyrir einstaka nemendur.
 

Lesskilningspróf - Orðarún

Orðarún er staðlað próf fyrir nemendur í 3. - 7. bekk. Prófin eru tvö fyrir hvern árgang, annað í október og hitt í apríl. Prófið kannar hversu vel nemendur skilja meginefni texta og átta sig á staðreyndum, geta lesið á milli línanna og dregið ályktanir. Niðurstöður prófsins eru bornar saman við viðmið sem gefin eru út fyrir hvert próf.
 

Samræmd próf

Samræmd próf eru lögð fyrir nemendur í 4. og 7. bekk í september. Þegar niðurstöður berast skólunum eru þær  hafðar til hliðsjónar við skipulag kennslu fyrir nemendur. 
 

Til baka

 
English
Hafðu samband