Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Lestur

Lestrarþjálfun og góð lestrafærni er mikilvæg í námi allra barna og ungmenna og getur skipt sköpum varðandi framtíð þeirra. Börnin eru misvel undirbúin til að takast á við lestrarnám í upphafi skólagöngunnar og rannsóknir benda til þess að mikill munur sé á flestum þáttum læsis strax í fyrsta bekk og sé ekkert að gert er líklegt að þessi munur aukist enn frekar þegar líða tekur á skólagönguna.

Börnin læra að lesa og lesa til að læra. Í upphafi tengist lesturinn því að þekkja stafi og hljóð þeirra og tengja saman í orðbúta og setningar. Lesskilningur og góð lesfimi haldast svo í hendur en lesfimin byggir á nákvæmum og sjálfvirkum lestri og færni í hrynrænum þáttum tunumálsins, en allir þessir þættir stuðla að auknum lesskilningi. Fyrirhafnarlaus lestur, lesinn í viðeigandi hendingum (e. phrasing) og með réttu hljómfalli (e. intonation). Lesfimi er mikilvæg við upplestur og hljóðlestur og getur bæði stutt við og takmarkað lesskilning (Kuhn, Schwanenflugel, Meisinger, 2010).

Lestur og lestrarkennsla er ferli sem er í þjálfun alla skólagönguna. Lestur er málræn aðgerð sem byggir á samspili margra þátta sem eru nauðsynlegir til að túlka og skilja ritmál. Grunnur að góðri færni í lestri er lagður á fyrstu æviárum barnsins. Því betri málþroska sem barn hefur, því betur er það í stakk búið til að takast á við lestrarnám (Steinunn Torfadóttir, Lesvefurinn).

Lesfimi

Lesfimi vísar til sjálfvirkrar samhæfingar á umskráningu, orðaþekkingu og lesskilningi þannig að lesturinn verði bæði nákvæmur, hraður og sjálfvirkur. Nákvæmni felst í að lesa rétt en sjálfvirkni í því að þekkja framburð og merkingu ritaðs orðs um leið og það ber fyrir augu, fyrirhafnarlaust og án þess að þurfa að einbeita sér að því að umskrá orðið. Lesturinn þarf að vera liðlegur og með réttum áherslum svo að athyglin geti beinst að lesskilningi (Steinunn Torfadóttir og Helga Sigurmundsdóttir, Lesvefurinn).

Lesskilningur

Lesskilningur er færni sem byggir á orðaforða og málskilningi einstaklings. Um er að ræða hæfni til að skilja texta í mismunandi samhengi, sjónarhornum, tilgangi og markmiðum. Hann vísar til skilnings og endurheimtar á því sem börn lesa (Burn, Griffin & Snow. 1999). 
 
Til baka
 
English
Hafðu samband